Íslensk knattspyrna komin út
Íslensk knattspyrna 2009 eftir Víði Sigurðsson íþróttafréttamann er 29. bókin í samnefndum bókaflokki sem hóf göngu sína árið 1981. Bókaútgáfan Tindur gefur bókina út.
Íslensk knattspyrna 2009 er 240 blaðsíður, þar af 80 í lit, og í henni er fjallað um allt sem viðkemur fótboltanum á Íslandi á árinu 2009. Mjög ítarlega er fjallað um efri deildir karla og kvenna á Íslandsmótinu, einnig um neðri deildirnar, bikarkeppnina, landsleiki Íslands í öllum aldursflokkum, Evrópuleiki félagsliða, um alla yngri flokkana, atvinnumennina erlendis, vetrar- og vormótin, og allt annað sem tengist íslenskri knattspyrnu.
Í bókinni er jafnframt að finna mjög ítarlega tölfræði um lið og leikmenn, félagsliða og landsliða, litmyndir af meistaraliðum í öllum flokkum á Íslandsmótinu og öllum liðum í efstu deild karla.
Þá eru í bókinni ítarleg viðtöl við Atla Guðnason úr FH, Sif Atladóttur úr Val, Ólaf Jóhannesson landsliðsþjálfara karla og Sigurð Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfara kvenna.