Fréttir

Knattspyrna | 19. apríl 2010

Jafnt gegn Eyjamönnum

Keflavík gerði jafntefli við ÍBV 1-1 í Lengjubikarnum á laugardag.  Keflavíkurliðið var miklu betra í fyrri hálfleik og yfirspilaði andstæðinginn lengi vel.  Okkar menn voru yfir í hálfleik með marki frá Guðmundi Steinarssyni á 34. mínútu þegar hann var togaður niður í vítateig og vítaspyrna dæmd.  Guðmundur fór á punktinn og lét Albert verja frá sér en Gummi tók frákastið og skoraði.  Albert Sævarsson markvörður Eyjamanna varði snilldarlega nokkrum sinnum og geta þeir þakkað honum stigið sem þeir fengu í leiknum.  Áhyggjuefni Keflavíkurliðsins er hvað liðið dettur langt niður eins og það gerði í seinni hálfleik.  Það var eins og þeir biðu eftir því að Eyjamenn jöfnuðu, sem þeir og gerðu.  Þá var um seinan að fara að sækja þó svo að liðið ætti tvö dauðafæri í lok leiksins.  Niðurstaðan jafntefli og Keflavík endaði í 3ja sæti riðilsins og mætir Fram í átta liða úrslitum Lengjubikarsins fimmtudaginn 22. apríl.

Dómarinn Þorvaldur Árnason var ekki í sínu besta formi í leiknum.  Hann spjaldaði fyrir minnstu brot og sumir dómar hans, og ekki dómar, hreinlega hlægilegir og það á við dóma á bæði lið.  Hann hefur þó einhverja daga, líkt og við, til að laga til áður en Íslandsmótið hefst.

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Bjarni H. Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Alen Sutej, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Sigurður Sævarsson 65.), Brynjar Örn Guðmundsson (Bojan Ljubicic 87.), Paul McShane (Einar Orri Einarsson 46.), Magnús Þórir Matthíasson, Guðmundur Steinarsson (Jóhann Birnir Guðmundsson 46.) og Ómar Karl Sigurðsson (Andri Steinn Birgisson 46.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson og Magnús Þór Magnússon.


Byrjunarliðið í leiknum.


Gummi gerði markið.