Fréttir

Jafnt gegn FH
Knattspyrna | 23. maí 2014

Jafnt gegn FH

Keflavík og FH skildu jöfn þegar liðin mættust í 5. umferð Pepsi-deildarinnar en leikið var á Nettó-vellinum.  Hvort lið gerði eitt mark en Elías Már Ómarsson kom okkar mönnum yfir í upphafi leiks en Atli Viðar Björnsson jafnaði fyrir gestina undir lokin.  Bæði lið misstu mann af velli með rautt spjald í seinni hálfleik.

Eftir leikinn er Keflavík í 3. sæti deildarinnar með tíu stig stig eftir fimm leiki.

Næsti leikur er útileikur gegn Augnabliki í Borgunarbikarnum en leikurinn verður í Kónrum í Kópavogi miðvikudaginn 28. maí kl. 19:15.

Leikskýrsla á KSÍ.is

  • Þetta var 49. leikur Keflavíkur og FH í efstu deild.  Þetta var 16. jafntefli liðanna en Keflavík hefur unnið 10 leiki og FH hefur sigrað í 23 leikjum.  Markatalan er 62-84 fyrir FH.
     
  • Elías Már Ómarsson gerði þriðja mark sitt í sumar og fimmta mark sitt í efstu deild í 21 leik.
     
  • Frans Elvarsson kom inn í byrjunarliðið og lék sinn fyrsta leik í sumar.
     
  • Sindri Kristinn Ólafsson var í leikmannahópi í fyrsta sinn í sumar en komu ekki við sögu í leiknum.  Hann kom inn í hópinn fyrir Árna Frey Ásgeirsson sem verið hafði varamarkvörður í fyrstu leikjum sumarsins.
     
  • Jóhann Birnir Guðmundsson lék sinn 150. leik fyrir Keflavík í efstu deild.  Hann er 12. leikmaðurinn í sögu Keflavíkur til að ná þeim áfanga.  Einar Orri Einarsson lék sinn 100. leik í efstu deild.
     
  • Keflavík hafði tapað síðustu fimm leikjum sínum gegn FH í deildinni.  Síðasta stigið gegn FH kom í maí 2011 þegar liðin gerðu einnig 1-1 jafntefli á heimavelli okkar..

Myndir: Jón Örvar Arason