Fréttir

Knattspyrna | 10. maí 2011

Jafnt gegn KR í hasarleik

Það var hart barist á KR-velli þegar okkar menn heimsóttu KR í 2. umferð Pepsi-deildarinnar.  Keflavík náði forystunni þegar Hilmar Geir Eiðsson gerði laglegt mark eftir glæsisendingu Guðmundar Steinarsson.  Mikið gekk á undir lok leiksins og lauk atgangnum með því að Óskar Örn Hauksson jafnaði fyrir heimamenn.  Niðurstaðan 1-1 jafntefli og Keflavík er í 2.-4. sæti deildarinnar með 4 stig.

Næsti leikur er heimaleikur gegn FH á Néttó-vellinum miðvikudaginn 11. maí kl. 19:15.

  • Leikurinn var 90. leikur Keflavíkur og KR í efstu deild en KR er einmitt það lið sem við höfum oftast mætt í deildinni.  Þetta var 28. jafntefli liðanna, Keflavík hefur sigrað í 32 leikjum en KR í 30.  Markatalan er 125-136 fyrir KR.
        
  • Þetta var sjötta jafnteflið í síðustu níu leikjum liðanna á KR-vellinum.  Keflavík hefur unnið tvo af þessum leikjum en KR einn.
          
  • Grétar Hjartarson kom inn á sem varamaður undir lokin og lék sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í efstu deild.  Grétar hafði áður leikið 53 leiki í efstu deild fyrir KR og 103 leiki fyrir Grindavík.
          
  • Hilmar Geir fer vel af stað og hefur nú skorað í tveimur fyrstu deildarleikjum sínum með Keflavík.
            

Fótbolti.net
En þegar allt leit út fyrir að Keflvíkingar myndu ná sigri í leiknum að þá eftir mikinn atgang í teig Keflvíkinga náði Viktor Bjarki að senda boltann og Óskar Örn Hauksson náði að koma skoti að marki og jafnaði metin. Keflvíkingar voru ósáttir við Gunnar Jarl dómara því að einn af þeirra leikmönnum lá eftir óvígur í grasinu þegar KR jafnaði en Gunnar Jarl sá ekki ástæðu til að stöðva leikinn.

Eitt atvik átti síðan eftir að gerast áður en leiknum lauk sem var til þess að Keflvíkingar urðu æfir út í Gunnar Jarl. Magnús Sverrir Þorsteinsson var sloppinn einn í gegnum vörn KR en Grétar Sigfinnur Sigurðarsson náði að tækla Magnús og stöðva hann. Grétar fór í boltann og gerði þetta virkilega vel en skiljanlegt að Keflvíkingar væru ósáttir við það að Gunnar Jarl skildi ekki dæma vítaspyrnu. Það hefði alveg getað farið þannig en Gunnar dæmdi ekki og fljótlega var leikurinn flautaður af og niðurstaðan því í raun og veru sanngjarnt jafntefli.
 
Fréttablaðið / Vísir
Síðar hálfleikurinn hófst rétt eins og sá fyrri og liðin lengi í gang. Keflvíkingar hresstust við þegar leið á síðari hálfleikinn og eftir um korters leik þá kom fyrsta mark leiksins. Hilmar Geir Eiðsson skoraði virkilega laglegt mark eftir frábæra stungusendingu frá Guðmundi Steinarssyni.

Það var síðan á 90.mínútu leiksins þegar KR-ingar náðu loksins að skora og jafna leikinn. Þar var að verki Óskar Örn Hauksson sem kom boltanum framhjá Ómari í markinu eftir laglegt skot með hægri fæti. Keflvíkingar voru alls ekki sáttir við Gunnar Jarl ,dómara leiksins, en leikmaður liðsins lá óvígur eftir inn í vítateignum þegar jöfnunarmark KR kom.

Keflavík: Ómar 7, Guðjón 7, Goran 6, Adam 5, Haraldur 6, Einar Orri 6, Andri Steinn 7, Jóhann Birnir 5 (Magnús Sverrir -), Hilmar Geir 7 (Grétar -), Magnús Þórir 6, Guðmundur 7 (Bojan Stefán -).

Morgunblaðið / Mbl.is
KR mátti þakka fyrir að fá eitt stig út úr þessari viðureign en þeir voru sjaldan líklegir til að skora og ef dómarinn hefði farið að vilja Willums í aðdraganda marksins er erfitt að finna mörg dauðafæri sem KR-ingar fengu. Að sama skapi sköpuðu Keflvíkingar sér ekki mikið en leikurinn einkenndist af löngum spyrnum og háloftabolta þrátt fyrir frekar mikinn vind í Frostaskjóli.
M:
Haraldur, Hilmar Geir, Guðmundur.
 

Pepsi-deild karla, KR-völlurinn, 8. maí 2011
KR 1
(Óskar Örn Hauksson 89.)
Keflavík 1 (Hilmar Geir Eiðsson 61.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Goran Jovanovski, Adam Larsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Hilmar Geir Eiðsson (Grétar Hjartarson 86.), Jóhann Birnir Guðmundsson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 76.), Einar Orri Einarsson, Andri Steinn Birgisson, Magnús Þórir Matthíasson, Guðmundur Steinarsson (Bojan Stefán Ljubicic 87.). 
Varamenn: Bergsteinn Magnússon, Ásgrímur Rúnarsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Arnór Ingvi Traustason.
Gul spjöld: Adam Larsson (56.), Goran Jovanovski (71.), Andri Steinn Birgisson (85.).

Dómari: Gunnar Jarl Jónsson.
Aðstoðardómarar: Áskell Þór Gíslason og Smári Stefánsson.
Eftirlitsdómari: Björn Guðbjörnsson.
Áhorfendur: 2.334.




Hilmar Geir byrjar með látum...
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)