Jafnt gegn Val
Eftir 1-1 jafntefli gegn Val í 17. umferð Landsbankadeildarinnar er ljóst að Keflavík verður ekki ofar en í 4. sæti í deildinni í ár. Reyndar voru okkar menn heppnir að sleppa með annað stigið úr leiknum; Valsmenn voru mun sterkari og grimmari og Keflavíkurliðið var langt frá sínu besta. Valsliðið mun því berjast við KR um 2. sæti deildarinnar en allt útlit er fyrir að við ljúkum keppni í 4. sæti sem er þá sami árangur og síðasta sumar. Lokaumferðin fer fram laugardaginn 23. september kl. 14:00 og leikum við í Kópavogi gegn Breiðablik Sá leikur verður ekki auðveldur enda er Breiðablik í botnsæti og berst fyrir lífi sínu í deildinni.
Valur byrjaði leikinn af miklum krafti og á upphafsmínútum átti Garðar Jóhannsson ein þrjú skot, tvö þeirra fóru rétt framhjá en Ómar varði eitt þeirra vel. Eftir um tíu mínútna kom fyrsta alvörusókn okkar þegart Jónas átti ágætt skot rétt yfir. Í kjölfarið kom ágætur sprettur og Guðmundur Steinars átti hörkuskot úr aukaspyrnu sem Kjartan varði naumlega og Valsmenn björguðu síðan á síðustu stundu. Gestirnir náðu síðan betri tökum á leiknum og komust yfir á 25. mínútu eftir snarpa sókn. Boltinn kom síðan fyrir frá vinstri og þar var Guðmundur Benediktsson einn og óvaldaður og afgreiddi boltann viðstöðulaust í markið. Vel að verki staðið hjá Valsmönnum. Eftir markið áttu okkar menn nokkrar góðar sóknir og komust næst því að skora þegar Jónas átti fast skot sem Hallgrímur stýrði rétt framhjá markinu. Á 36. mínútu kom síðan jöfnunarmarkið. Eftir laglega sókn upp vinstri kantinn braust Hallgrímur inn í teiginn þar sem hann var felldur og Erlendur dómari dæmdi víti. Guðmundur tók spyrnuna, Kjartan varði en Guðmundur fylgdi vel á eftir og skoraði. Skömmu síðar sluppu Valsmenn í gegn en Ómar var snöggur út og bjargaði eins og hann gerði þó nokkrum sinnum í leiknum. Undir lok hálfleiksins átti Guðmundur lúmskt skot sem fór rétt framhjá og staðan í hálfleik því 1-1.
Eftir fremur slakan fyrri hálfleik hafa stuðningsmenn Keflavíkur sjálfsagt vonast eftir því að sjá meiri kraft í liðinu í þeim síðari. Það gekk hins vegar ekki eftir, liðið fann aldrei taktinn og Valsliðið var mun öflugra. Seinni hálfleikurinn fór reyndar rólega af stað en gestirnir urðu síðan ágengari án þess að skapa sér dauðafæri. Baldur Aðalsteinsson átti hörkuskot rétt yfir og Ómar varði síðan vel þegar skot frá Guðmundi Benediktssyni breytti um stefnu af varnarmanni. Undir lokin fengu Valsmenn síðan hörkufæri þegar Matthías Guðmundsson stóð einn í teignum eftir fyrirgjöf en Ómar varði skalla hans af stakri snilld. Á lokamínútunni munaði síðan minnstu að Keflavík næði að stela sigrinum en Kjartan varði þá naumlega skalla frá Þórarni. Niðurstaðan því jafntefli þó Valsmann hafi óneitanlega átt meira í leiknum.
Keflavíkurvöllur, 16. september - Landsbankadeildin
Keflavík 1 (Guðmundur Steinarsson 36.)
Valur 1 (Guðmundur Benediktsson 25.)
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustavsson, Branko Milicevic - Símun Samuelssen, Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Hallgrímur Jónasson (Einar Orri Einarsson 77.) - Stefán Örn Arnarson (Þórarinn Kristjánsson 66.), Guðmundur
Varamenn: Magnús Þormar, Benedikt Birkir Hauksson, Garðar Eðvaldsson, Ragnar Magnússon, Bjarki Þór Frímannsson
Gul spjöld: Guðmundur
Dómari: Erlendur Eiríksson
Aðstoðardómarar: Gunnar Gylfason og Einar Sigurðsson
Eftirlitsmaður: Geir Agnar Guðsteinsson
Áhorfendur: 1.018
Guðmundur um það bil að skora okkar mark í leiknum.
(Mynd: Þorgils Jónsson / Víkurfréttir)