Fréttir

Knattspyrna | 24. ágúst 2005

Jafnt hjá 2. flokki

2. flokkur spilaði í gærkvöldi við Hauka á Ásvöllum.  Það mátti strax í upphafi vera nokkuð ljóst að við ættum ekkert inni hjá dómara leiksins.  Leikurinn sem slíkur var í jafnvægi, hvorugt liðið náði að skapa sér nein teljandi færi fyrr en við fengum aukaspyrnu rétt fyrir utan teig andstæðinganna.  Það hafði verið ákveðið fyrir leik að Óli Jón tæki fyrstu spyrnu sem við fengjum fyrir utan teig, hann hafði lofað að skora.  Óli Jón stóð við sitt, 0-1 fyrir Keflavík í hálfleik.
 
Það var lagt upp með það að standa í lappirnar við okkar vítateig og í honum þar sem við skynjuðum að dómgæslan var brothætt.  Haukarnir jöfnuðu snemma og var það lélegt af okkar hálfu að koma ekki í veg fyrir það.  Dæmt var víti á Haukana nokkru síðar þegar stjakað var við Davíð senter og datt hann á hausinn.  Davíð tók spyrnuna sjálfur og skoraði af öryggi.  Á 95. mínútu tók dómarinn sig til og færði ætlað brot fyrir utan teig inn í teiginn með aðstoð línuvarðar.  Haukarnir jöfnuðu þar með leikinn og þar við sat.

Það verður ekki sagt að strákarnir hafi ekki barist því það gerðu þeir allir sem einn og eiga hrós skilið.  Með sigri í þessum leik gátum við endanlega tryggt okkur í A-deild næsta ár en það var það takmark sem við settum okkur fyrir mót.  Nú klárum við það bara hér heima eftir viku á móti Fjölni.  Leikurinn verður vonandi leikinn á Aðalvellinum.