Fréttir

Knattspyrna | 13. júlí 2009

Jafnt í Eyjum

Þar var frábært fótboltaveður í Vestmannaeyjum í gærkvöldi þegar Keflvíkingar heimsóttu Eyjamenn í 11. umferð Pepsi-deildarinnar.  Slatti af keflvískum stuðningsmönnum var mættur á völlinn og lét vel í sér heyra og það var virkilega ánægjulegt að sjá þennan stóra hóp fylgja okkur alla leið til Eyja.  Þetta var hörkuleikur sem endaði 2-2 og öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik.  Keflavík byrjaði með látum og eftir tíu mínútur var Haukur Ingi búinn að skora af stuttu færi eftir að Magnús Þórir hafi átt skot að marki og boltinn féll fyrir fætur Hauks.  Bjarni Hólm átti svo skalla sem varnarmaður Eyjamanna bjargaði glæsilega á línu.  Bjarni átti mjög góðan leik í vörninni og það hafði engin áhrif á kappann þó svo að púað væri á hann í hvert sinn sem hann var með boltann.  Bjarni fékk mikið högg á handlegg í leiknum og höfðu viðstaddir aldrei séð aðra eins bólgu sem tútnaði mikið út en Falur sjúkraþjálfari reddaði því fljótt.  Haukur Ingi kom Keflavík í 0-2 á 18. mínútu þegar hann komst inn fyrir vörnina og skoraði örugglega.  Leikurinn var hraður og skemmtilegur og bæði lið sóttu á víxl.  Eyjamenn skoruðu svo tvö mörk með stuttu millibili og staðan allt í einu orðin 2-2.  Vert er að minnast á heimsklassa markvörslu Lasse í lok hálfleiksins þegar hann sló boltann yfir eftir frábært skot Eyjamanna.
Seinni hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri en það vantaði ekki baráttuna hjá báðum liðum.  Stefán Örn fékk dauðafæri og hefði átt að gera betur.  Guðjón Árni varð að fara af leikvelli meiddur eftir samskipti sín við Viðar Örn, sóknarmann ÍBV. Viðar Örn fékk svo rauða spjaldið tveimur mínutum síðar.  Ekki gat Keflavík nýtt sér liðsmuninn; bæði lið áttu þokkaleg færi það sem eftir lifði leiks en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan jafntefli.

Símun Samuelsen og Nicolai Jörgensen spiluðu ekki með Keflavík vegna meiðsla sem þeir hlutu í leiknum gegn Valletta á fimmtudaginn var.  Jóhann Birnir er að komast á fínt ról og spilaði í 22 mínutur í gær.  Og til að fólk fái að fylgjast með þá er Sigurbergur að koma til baka og þeir Ómar og Hólmar Örn eru á skokkinu.  Guðmundur Steinarsson verður svo löglegur með okkur í næsta leik sem verður á laugardag gegn Íslandsmeisturum FH í Krikanum.

Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson (Tómas Karl Kjartansson 69.), Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Jóhann Birnir Guðmundsson 69.), Einar Orri Einarsson, Jón Gunnar Eysteinsson, Hörður Sveinsson, Haukur Ingi Guðnason og Magnús Þórir Matthíasson (Stefán Örn Arnarson 55.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Bessi Víðisson, Magnús Þór Magnússon og Þorsteinn Atli Georgsson.
Dómari: Kristinn Jakobsson.


Kristján þjálfari var í viðtali á fótbolti.net og birtum við það hér með þeirra leyfi:
,,Miðað við allt í leiknum þá held ég að þegar að botninn er á hvolft sé það viðunandi að fá stig," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga við Fótbolta.net eftir 2-2 jafntefli liðsins gegn ÍBV í Pepsi-deildinni í kvöld.

Haukur Ingi Guðnason kom Keflavík í 2-0 snemma leiks en Eyjamenn náðu að svara fyrir sig og jafna fyrir leikhlé.
,,Ég var mjög ánægður með byrjunina. Við stjórnuðum leiknum mjög vel, komumst í 2-0 og áttum möguleika á þriðja markinu í tvígang. Í annað skiptið björguðu þeir á línu og í hitt skiptið hittum við ekki boltann í upplögðu færi sem var svekkjandi."

,,Við fengum mark á okkur eftir misskilning í horninu í fyrsta markinu og svo í rauninni aftur í aukaspyrnunini í marki númer tvö. Við höfum verið að vinna í að verjast betur í föstum leikatriðum því að við erum ekki að fá á okkur mörg mörk úr opnum leik."

Kristján telur að Evrópuleikurinn gegn Valletta síðastliðinn fimmtudag hafi haft áhrif á Keflvíkinga í kvöld.
,,Hann tók sinn toll. Símun (Samuelsen) meiddist í þeim leik og gat ekki spilað í kvöld og það sást á leikmönnum að við höfðum ekki nægilega þrek í lokin til að setja sigurmarkið. Það er óásættanlegt að vera einum fleiri í tæpar 20 mínútur og ná ekki að setja sigurmarkið. Þétt leikjaprógramm tekur sinn toll og hefur áhrif á menn en við eigum samt að setja sigurmarkið. Við fengum tvö hálffæri en ekki nein nógu afgerandi færi."

Keflvíkingar hafa nú klárað fyrri umferð deildarinnar en þeir hafa 19 stig eftir hana.
,,Við erum alveg þolanlega ásáttir með 19 stig en markmiðin okkar voru samt að vera með örlítið fleiri," sagði Kristján en Keflavík mætir FH í næsta leik á laugardaginn. Keflavík er eina liðið sem hefur náð stigum af FH í sumar en liðið hafði betur 1-0 gegn Fimleikafélaginu í fyrstu umferðinni.

,,Það var góður sigur en þeir hafa verið á svakalegri siglingu og eru feykilega öruggir í sinni spilamennsku. Það kemur maður í manns stað þar, sama hvað á bjátar og það verður gríðarlega erfitt að mæta í Krikann á laugadaginn. Vonandi verðum við það öflugir að við getum veitt þeim samkeppni í leiknum," sagði Kristján að lokum.


Haukur Ingi gerði bæði mörkin í Eyjum.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)