Fréttir

Knattspyrna | 27. júlí 2010

Jafnt í grannaslagnum

Keflavík og Grindavík gerðu jafntefli 1-1 í 13. umferð Pepsí-deildarinnar á Sparisjóðsvellinum í gærkvöldi.  Enn og aftur fær Keflavík færin sem urðu æði mörg í gær en leikmönnum virðist fyrirmunað að koma boltanum í netið. 

Leikurinn byrjaði fjörlega og það liðu ekki nema átta mínútur af leiknum þegar Gilles Ondo skoraði gott mark og kom Grindavík í 0-1.  Keflavík tók miðju, brunuðu upp og Magnús Þórir gaf á Jóhann Birni sem þrumaði boltanum í netið og jafnaði 1-1.  Keflavík var síðan mun sterkara í leiknum og fékk mörg góð færi en menn voru ekki á markaskónum. 

Keflavík er dottið niður í 5. sæti deildarinnar enda aðeins fengið tvö stig úr síðustu fjórum leikjum. Nú er tíu daga frí framundan og næsti leikur verður fimmtudaginn 5. ágúst gegn Fylki í Árbænum

  • Þetta var sjöunda jafntefli Keflavíkur og Grindavíkur í efstu deild.  Keflavík hefur unnið 12 leiki og Grindavík níu.  Markatalan er 41-39 fyrir Keflavík.
     
  • Keflavík hefur ekki tapað í fimm síðustu heimaleikjum gegn Grindavík og ekki í síðustu níu deildarleikjum þessara liða.  Síðasti sigur Grindavíkur kom í september 2005 þegar þeir unnu 2-1 í Grindavík.
      
  • Guðmundur Steinarsson tók út leikbann vegna fjögurra gulra spjalda og var því ekki í leikmannahópi Keflavíkur.
       
  • Jóhann Birnir skoraði sitt annað mark í sumar og er þar með einn af fjórum markahæstu leikmönnum Keflavíkur!  Markið var jafnframt 20. mark Jóhanns fyrir Keflavík í efstu deild.
     
  • Sigurbergur Elísson og Bojan Stefán Ljubicic komu báðir inn á sem varamenn undir lok leiksins og léku sinn fyrsta leik í sumar.
     
  • Lasse Jörgensen var á bekknum hjá Keflavík og þá var Viktor Hafsteinsson í fyrsta skipti í leikmannahópnum.
            

Fótbolti.net
,,Það mun taka mig tíma að ná mér niður, það er sárt og svekkjandi að klára ekki svona leik," sagði Willum við Fótbolta.net eftir leik.

,,Við spiluðum frábæran leik, það er það sem er sárt og svekkjandi að spila frábæran leik og að eiga miklu fleiri færi og miklu fleiri dauðafæri og klára þau ekki."

,,Það er erfitt fyrir strákana eftir leik, að hafa spilað vel, barist vel, unnið vel og við héldum boltanum vel á löngum köflum og færðum hann vel á milli miðsvæðisins, út á bakverðina og fyrirgafir hægri vinstri og að við skulum ekki klára færin og vinna þennan leik, er sárt og svekkjandi," sagði Willum en Keflvíkingar eru áfram í 5.sæti deildarinnar með 20 stig.

Fréttablaðið / Vísir
Það fóru örugglega margir Keflvíkingar heim af vellinum í kvöld óskandi þess að liðið hefði alvöru markaskorara. Liðið hefur oft spilað vel eins og í kvöld en mörkin hafa látið á sér standa. Þetta sést vel á tölfræðinn enda eru mörkin aðeins orðin 13 í 13 leikjum í sumar og markahæstu leikmenn liðsins eru einungis komnir með tvö mörk þegar mótið er miklu meira en hálfnað.
Ómar 7, Guðjón 5, Alen 6, Bjarni 5, Haraldur 7, Einar Orri 6, Paul 6 (Bojan -),  Hólmar Örn 6, Jóhann Birnir 7 (Hörður 4), Magnús Sverrir 5 (Sigurbergur -), Magnús Þórir 6.

Morgunblaðið / Mbl.is
Enn og aftur kemur blaðamaður að þungum brúnum á leikmanni Keflavíkur eftir leik þeirra á Sparisjóðsvellinum. Guðjón Árni Antoníusson var gríðarlega súr með að hafa ekki tekið sigurinn. "Ég er hrikalega svekktur að hafa ekki fengið 3 stig hérna í kvöld. Við lendum marki undir en komum strax til baka og eftir það fannst mér við vera í bílstjórasætinu allan tímann. Við fáum ógrynni af færum til að klára leikinn en reyndar fá þeir líka sín færi í skyndisóknum þegar við erum við það að ýta boltanum yfir línuna hinum megin. Við vorum klaufar að klára ekki þessar sóknir sem við fengum. Í stað þess að skjóta á markið þá erum við að spila boltanum kannski of langt inní teig. En á heildina séð áttum við klárlega að vinna þennan leik."
MM: Ómar.
M: Guðjón, Einar Orri, Paul, Hólmar, Magnús Sverrir, Jóhann Birnir, Magnús Þórir.

Víkurfréttir /VF.is
Þegar leið á hálfleikinn fóru Keflvíkingar að verða töluvert sterkari aðilinn á vellinum og undir lokin var einstefna á vellinum í átt að marki Grindvíkinga. Hvert dauðafærið rak annað en alltaf sluppu Grindvíkingar með skrekkinn. Þeir björguðu meðal annars tvisvar í röð á línu eftir hornspyrnur frá Keflvíkingum. Leikmenn Keflavíkur horfðu á boltann sleikja slánna, fara í innan verða stöngina og aftur út en aldrei kom markið og því lauk leiknum með 1-1 jafntefli.
 

Pepsi-deild karla, Sparisjóðsvöllurinn, 26. júlí 2010
Keflavík 1
(Jóhann Birnir Guðmundsson 9.)
Grindavík 1 (Gilles Ondo 8.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Bojan Stefán Ljubicic 89.), Einar Orri Einarsson, Paul McShane (Sigurbergur Elísson 89.), Hólmar Örn Rúnarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson  (Hörður Sveinsson 68.), Magnús Þórir Matthíasson.
Varamenn: Lasse Jörgensen, Magnús Þór Magnússon, Arnór Ingvi Traustason, Viktor Hafsteinsson.
Gul spjöld: Jóhann Birnir Guðmundsson (38.), Bjarni Hólm Aðalsteinsson (89.).

Dómari: Einar Örn Daníelsson.
Aðstoðardómarar: Áskell Þór Gíslason og Einar Sigurðsson.
Varadómari: Guðmundur Ársæll Guðmundsson.
Eftirlitsdómari: Sigurður Hannesson.
Áhorfendur: 1.377.




Eitt af fjölmörgum færum okkar manna í leiknum en allt kom fyrir ekki.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)