Jafnt í vígsluleiknum
Keflavík og FH gerðu 1-1 jafntefli í 10. umferð Pepsi-deildarinnar í góðum og skemmtilegum leik. Þetta var vígsluleikur á nýjum og endurbættum Sparisjóðsvellinum. Veðrið var gott, hiti um 15 stig, og vel mætt á völlinn. Jóhann Birnir og Hörður voru komnir í hópinn að nýju eftir meiðsli en Haukur Ingi og Andri Steinn eru enn frá. Keflavík tefli fram sama byrjunarliði og í sigurleiknum gegn Val.
Leikurinn var fjörugur í alla staði og bæði lið fengu fjölmörg góð færi. Það var við hæfi að Guðmundur Steinarsson skoraði fyrsta markið á nýjum velli þegar hann skoraði gott mark á 27. mínútu og kom Keflavík í 1-0. Tommy Nielsen misnotaði vítaspyrnu fyrir FH skömmu síðar þegar hann skaut hátt yfir markið. Staðan var því 1-0 fyrir Keflavík í hálfleik.
Seinni hálfleikur byrjaði vel og markmenn liðanna, Ómar hjá Keflavík og Gunnleifur hjá FH, voru báðir í miklu stuði. Á 61. mínútu jafnaði Ólafur Páll Snorrason fyrir FH með fallegu marki. Leikurinn var áfram opinn og skemmtilegur og mikið af færum á báða bóga. En mörkin urðu ekki fleiri og geta bæði lið vel við unað.
Eftir leikinn er Keflavík í 3. sæti deildarinnar með 19 stig, stigi á eftir Breiðablik og ÍBV. Næst á dagskránni er svo annar toppleikur þegar við heimsækjum Eyjamenn á fimmtudaginn.
-
Keflavík og FH hafa nú leikið 41 leik í efstu deild. Keflavík hefur unnið 10 leiki og FH 17 en þetta var 14. jafntefli liðanna. Markatalan er 54-62 fyrir FH.
-
Þetta var fyrsta jafntefli liðanna í Keflavík frá árinu 2002. Síðan höfðu liðin leikið þar sex leiki og unnið þrjá hvort.
-
Guðmundur skoraði annað mark sitt í sumar og það 69. fyrir Keflavík í efstu deild. Það er athyglisvert að þetta var aðeins annað mark Guðmundur í 13 leikjum gegn FH í efstu deild. Til samanburðar hefur drengurinn gert 11 mörk gegn KR, 8 gegn Grindavík og 7 gegn Fram en þetta eru þau lið sem Guðmundur hefur verið duglegastur að skora gegn í efstu deild.
-
Það var vel við hæfi að Guðmundur skyldi skora fyrsta markið á "nýja" vellinum. Föðurbróðir hans, Jón Jóhannsson, gerði einmitt fyrsta markið sem skorað var á Keflavíkurvelli. Það var í vígsluleik vallarins 2. júlí 1967 en þá lék Keflavík gegn úrvalsliði Reykjavíkur. Jón skoraði eftir aðeins fimm mínútna leik en Reykvíkingar unnu reyndar 5-1. Fyrsti deildarleikurinn á vellinum var svo leikinn 9. júlí þegar Keflavík og Valur gerðu markalaust jafntefli. Fyrsta deildarmarkið kom í næsta leik þar á eftir en það gerði Friðrik Ragnarsson í 2-0 sigri gegn KR þann 23. júlí.
-
Hólmar Örn og Magnús Sverrir léku báðir sin 150. deildarleik fyrir Keflavík. Báðir hafa leikið 132 leiki í A-deild og 18 í B-deildinni árið 2003. Hólmar hefur skorað 17 mörk í efstu deild en Magnús 20 og í B-deildinni gerði Hólmar 6 mörk en þar skoraði Magnús 12 stykki.
-
Áhorfendur á leiknum voru 2.170 sem er mesti áhorfendafjöldi í Keflavík síðan í lokaleiknum árið 2008. Síðasta sumar komu flestir á leikinn gegn Stjörnunni eða 1.980. Og nú er vonandi að áhorfendur haldi áfram að fjölmenna á heimavöllinn okkar...
Fótbolti.net
,,Hann er svolítið sérstakur þessi leikur, FH var meira með boltann og við fengum þar af leiðandi opnari sóknir og hreinni færi," sagði Willum Þór Þórsson þjálfari Keflavíkur eftir 1-1 jafntefli gegn FH í kvöld.
,,Til dæmis tvisvar maður á móti markmanni þar sem Gulli bjargaði þeim með frábærri markvörslu."
,,Ég var ánægður með baráttuna í okkar mönnum. Það kostar mikil hlaup að eiga við FH liðið. Þeir eru að finna sitt form og sóknarfærslurnar mjög rútíneraðar."
,,Ég var mjög ánægður með baráttuna hjá okkur, það var alltaf á að klára leikinn. Þó þeir hafi verið meira með boltann þá áttum við góðar sóknir og vorum mjög baráttu samir og vinnusamir."
Fréttablaðið / Vísir
Það var þéttsetið á nýja Sparisjóðvellinum í kvöld þegar að Keflvíkingar vígðu nýja völlinn sinn og gátu loksins spilað sinn fyrsta alvöru heimaleik í sumar. Liðin sættust á jafntefli í þessum glæsilega vígsluleik en bæði lið fengu góð tækifæri til að gera útum leikinn. Það vakti athygli að fyrir leik birtist prestur á miðjum velli sem blessaði völlinn fyrir heimamenn.
Keflvíkingar opnuðu nýja völlinn með látum en Guðmundur Steinarsson opnaði markareikning sinn á nýja Sparisjóðsvellinum með hörku skoti sem Gunnleifur Gunnleifsson réði ekki og heimamenn í góðri stöðu eftir hálftíma.
Ómar 7, Guðjón 6, Alen 7 (Jóhann Birnir -), Bjarni 6, Haraldur 7, Einar Orri 6, Paul 6 (Brynjar Örn 6), Hólmar Örn 6, Magnús Þórir 6 (Ómar Karl -), Magnús Sverrir 6, Guðmundur 7.
Morgunblaðið / Mbl.is
Keflvíkingar vígðu nýjan völl sinn í gærkvöldi með 1:1 jafntefli gegn Íslandsmeisturum FH í 10. umferð Pepsídeildarinnar. Leikurinn var hin mesta skemmtun og bæði lið fengu fín færi á að tryggja sér sigurinn en jafntefli var niðurstaðan í þessum vígsluleik á glænýju torfi á Sparisjóðsvellinum.
Í heildina var þetta hraður og skemmtilegur leikur milli tveggja sterkra liða sem hefði getað endað með sigri á hvorn veginn sem var. Við skulum bara kalla þetta stórmeistarajafntefli og það ættu flestir að vera sammála um það.
MM: Alen.
M: Ómar, Guðjón, Magnús Sverrir, Guðmundur.
Víkurfréttir /VF.is
Keflvíkingar gerðu í kvöld 1-1 jafntefli gegn FH í 10. umferð Pepsi deildar karla. Leikurinn var sá fyrsti sem spilaður er á Sparisjóðsvellinum í ár og var góð stemming á meðal þeirra 2170 áhorfenda sem mættu á völlinn.
Gestirnir voru töluvert sterkari á fyrstu mínútum leiksins og áttu þeir nokkrar hættulegar sóknir. Eftir um tuttugu mínútna leik var þó aðeins farið að lifna yfir leik Keflvíkinga og á 28. mínútu kom Guðmundur Steinarsson þeim yfir. Eftir gott spil upp kantinn þrumaði hann boltanum á Gunnlaug í markinu sem missti boltann klaufalega í netið, staðan því orðin 1-0 og fyrsta mark sumarsins á Sparisjóðsvellinum komið í hús.
Pepsi-deild karla, Sparisjóðsvöllurinn, 4. júlí 2010
Keflavík 1 (Guðmundur Steinarsson 27.)
FH 1 (Ólafur Páll Snorrason 61.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej (Jóhann Birnir Guðmundsson 65.), Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson, Paul McShane (Brynjar Örn Guðmundsson 59.), Hólmar Örn Rúnarsson, Magnús Þórir Matthíasson (Ómar Karl Sigurðsson 89.), Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Sigurður Gunnar Sævarsson, Bojan Stefán Ljubicic, Hörður Sveinsson.
Gul spjöld: Guðmundur Steinarsson (20.), Bjarni Hólm Aðalsteinsson (34.).
Dómari: Erlendur Eiríksson.
Aðstoðardómarar: Einar Sigurðsson og Halldór Breiðfjörð Jóhannsson.
Eftirlitsdómari: Einar K. Guðmundsson.
Áhorfendur: 2170, og skemmtu sér konunglega.
Byrjunarlið Keflavíkur í þessum sögulega leik.
(Mynd: Jón Örvar Arason)