Fréttir

Knattspyrna | 23. júní 2005

Jafntefli gegn Fylki

Keflavík og Fylkir skildu jöfn í 7. umferð Landsbankadeildarinnar á Keflavíkurvelli í kvöld.  Leikurinn endaði 2-2; okkar menn komust tvisvar yfir en gestunum tókst tvívegis að jafna leikinn.  Keflavíkurliðið var ekki að leika vel í leiknum, lítið var um spil en meira um langar spyrnur fram völlinn.  Enn gengur illa að halda markvörðum liðsins heilum heilsu en Magnús fór meiddur af velli snemma í seinni hálfleik.

Keflavík fékk óskabyrjun í leiknum þegar Gunnar Þór Pétursson varð fyrir því að setja boltann í eigið mark eftir aðeins sex mínútna leik.  Það voru Fylkismenn sem sóttu meira en okkar mönnum gekk illa að halda boltanum og reyndu helst langar sendingar á framherjana.  Guðmundur átti reyndar tvö hörkuskot, annað fór rétt framhjá en hitt var vel varið.  Gestirnir jöfnuðu leikinn á 29. mínútu.  Boltanum var þá lyft inn fyrir Keflavíkurvörnina sem var allt annað en örugg í þessum leik.  Magnús markmaður og Björgólfur Takefusa fóru báðir í boltann sem hrökk til Hrafnkels Helgasonar sem kom honum í markið.  Rétt fyrir lok hálfleiksins komust okkar menn aftur yfir og enn var það aukaspyrna frá Guðmundi sem skóp mark.  Keflavík fékk þá aukaspyrnu töluvert fyrir utan teiginn og Guðmundur lét vaða neðst í hægra hornið.  Bjarni Þórður varði vel, Hólmar Örn fylgdi á eftir en enn varði Bjarni.  Þá var komið að Stefáni og honum tókst að koma boltanum í netið.  Gott mark og menn fylgdu góðri aukaspyrnunni vel eftir.  Enn var ekki allt búið og rétt áður en flautað var til hálfleiks varði Magnús vel dauðafæri Fylkismanna.

Fylkisliðið byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og sótti ákaft eins og við mátti búast.  Þeir komu boltanum reyndar fljótlega í netið en markið var dæmt af en Björgólfur hafði rennt sér harkalega í Magnús.  Fylkismenn komust stuttu síðar einir í gegn en skutu yfir og aftur eftir hörkuskot.  Þá var komið að aukaspyrnu gestanna sem fór rétt framhjá.  Skömmu síðar treysti Magnús sér ekki til að halda lengur áfram eftir áreksturinn við Björgólf og Ómar kom í markið.  Á 63. mínútu jöfnuðu Fylkismenn leikinn.  Vörnin var illa á verði, há sending kom inn í teiginn þar sem Christian Christiansen var einn og óvaldaður og átti ekki í erfiðleikum með að skalla yfir Ómar sem kom engum vörnum við.  Stuttu seinna varði Ómar hörkuskot frá Gunnari Þór í horn.  Í kjölfarið hresstust okkar menn og sóttu töluvert.  Engin umtalsverð færi litu þó dagsins ljós en Issa átti ágætt skot sem Bjarni varði vel í horn.  Allt stefndi þannig í jafntefli.  Þegar 90 mínúturnar voru að renna út áttu Fylkismenn hörkuskot sem stefndi efst í bláhornið en Ómari tókst á ótrúlegan hátt að verja í horn.  Undir lokin átti Guðmundur ágætt skot framhjá en jafnteflið var staðreynd og liðin því ennþá með sama stigafjölda í Landsbankadeildinni.

Keflavíkurliðið getur vel við unað að hafa gert jafntefli í þessum leik.  Liðið var ekki að leika vel, lítið var um spil og of mikið um langar sendingar fram völlinn.  Vörnin var ekki nógu samstíga og liðið varðist ekki nógu vel sem heild.  Framherjarnir voru duglegir og náðu að skapa talsverðan usla þrátt fyrir allt.  En liðið heldur enn 3.-4. sæti deildarinnar ásamt Fylki og enn hefur Fylkisliðinu ekki tekist að sigra í Keflavík í efstu deild.  Þetta var 8. tilraunin en Keflavík hefur unnið fjóra leiki og fjórum lokið með jafntefli.

Keflavíkurvöllur, 23. júní 2005
Keflavík 12 (Sjálfsmark 7., Stefán Örn Arnarson 44.)
Fylkir 2 (Hrafnkell Helgason 29., Christian Christiansen 63.)

Keflavík (4-4-2): Magnús Þormar (Ómar Jóhannsson 57.) - Guðjón Antoníusson, Michael Johansson, Baldur Sigurðsson, Branko Milicevic - Bjarni Sæmundsson (Issa Abdulkadir 78.), Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Gunnar Hilmar Kristinsson - Guðmundur Steinarsson, Stefán Örn Arnarson 
Varamenn: Ásgrímur Albertsson, Einar Orri Einarsson, Atli Rúnar Hólmbergsson
Gul spjöld: Branko Milicevic (67.)

Dómari: Erlendur Eiríksson
Aðstoðardómarar: Gunnar Gylfason og Hans Kristján Scheving
Eftirlitsdómari: Geir Agnar Guðsteinsson
Áhorfendur: 852