Jafntefli gegn Grindvíkingum
Keflvíkingar og Grindvíkingar gerðu 1-1 jafntefli í gærkvöldi þegar liðin mættust í 9. umferð Pepsi-deildarinnar. Fyrri hálfleikur var fjörugur og mikil barátta. Bæði lið áttu þokkaleg færi og Keflavík var sterkara ef eitthvað var. Staðan var hisn vegar 0-0 í hálfleik. Það voru svo liðnar fimm mínútur af seinni hálfleik þegar Magnús Sverrir skoraði örugglega úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Simun. Grindvíkingar jöfnuðu leikinn á 74. mínútu með stórglæsilegu marki. Eftir þetta fengu bæð lið nokkur hálffæri en niðurstaðan varð jafntefli.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Nicolai Jörgensen, Símun Samuelsen (Haukur Ingi Guðnason 77.), Jón Gunnar Eysteinsson, Einar Orri Einarsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Hörður Sveinsson, Stefán Örn Arnarson (Magnús Þórir Matthíasson 60.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Tómas Karl Kjartansson, Brynjar Örn Guðmundsson, Viktor Guðnason, Þorsteinn Atli Georgsson.
Dómari: Garðar Örn Hinriksson.
Magnús Sverrir var í viðtali á fótbolti.net og birtum við það hér með þeirra leyfi.
Magnús Sverrir Þorsteinsson leikmaður Keflavíkur var sáttur með stigið sem liðið tók með sér úr Grindavíkinni þegar liðin öttu kappi í Pepsi-deild karla. Lokatölur voru 1-1 og skoraði Magnús fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu.
„Ég held þetta hafi bara verið sanngjörn úrslit. Við komum hingað með eitt stig og förum með eitt, þannig að við verðum bara að vera sáttir með það,“ sagði Magnús Sverrir við Fótbolti.net eftir leikinn.
„Mér fannst spilamennskan allt í lagi á köflum en ekki nógu góð. Við erum að lenda í því sama og í síðustu leikjum. Við erum ekki að halda boltanum nógu vel og það er eitthvað sem við þurfum að laga.“
„Við höfum verið að komast yfir í síðustu leikjum og eftir það höfum við verið að bakka og það hefur ekki verið að ganga. Við þurfum að setja annað til að geta klárað leikinn. Það er stutt í það að geta jafnað þegar við komumst yfir. En ég er allavega mjög ósáttur með að hafa ekki tekið þrjú stig.“
Magnús segir þó að það þurfi ekkert að dvelja við þennan leik, enda sé hörkuprógram framundan hjá Keflvíkingum.
„Við erum að fara í svaka prógram núna. Erum að fara í Evrópukeppnina og förum út á þriðjudaginn. Svo eru það 16 liða úrslitin í VISA-bikarnum og svo annar Evrópuleikur. Það þýðir ekkert að hugsa um þennan leik, við verðum bara að halda áfram,“ sagði Magnús að lokum við Fótbolti.net.
Magnús Sverrir skoraði fyrir Keflavík.