Fréttir

Jafntefli gegn KR
Knattspyrna | 14. júlí 2012

Jafntefli gegn KR

Keflavík og KR gerðu 1-1 jafntefli þegar liðin mættust á Nettó-vellinum í 11. umferð Pepsi-deildarinnar.  Emil Atlason kom yfir eftir um stundarfjórðungs leik í seinni hálfleik en Guðmundur Steinarsson jafnaði skömmu síðar.

Eftir leikinn er Keflavík í 4. sæti deildarinnar með 15 stig eftir ellefu leiki en flest liðin hafa leikið tíu leiki í deildinni.  Næsti leikur er heimaleikur gegn Fylki á Nettó-vellinum mánudaginn 23. júlí kl. 19:15.

  • Leikurinn var 92. leikur Keflavíkur og KR í efstu deild.  Þetta var 29. jafntefli liðanna, Keflaví hefur unnið 32 leiki og KR 31 leiki.  Markatalan er 128-140 fyrir KR.
             
  • Þetta var fyrsta stig Keflavíkur gegn KR á heimavelli í efstu deild síðan 2008 en KR hafði unnið þrjá síðustu leiki liðanna í Keflavík.
      
  • Guðmundur Steinarsson skoraði fimmta mark sitt í deildinni í sumar og er nú markahæsti leikmaður liðsins.  Mark Guðmundar var 79. markið hans fyrir Keflavík í efstu deild i 233 leikjum.
      
  • Daníel Gylfason kom inn á sem varamaður og lék sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í efstu deild.  Daníel verður 19 ára síðar í mánuðinum en hann hafði nokkrum sinnum verið í leikmannahópi liðsins í sumar og einnig í fyrra en lék nú með í fyrsta sinn.     
     

Fótbolti.net
,,Fyrir leik þá töldum við eitt stig mjög gott. Við vorum að mæta Íslands- og bikarmeisturum, en ég er ekki sáttur við eitt stig meðað við frammistöðu okkar í dag. Við fengum miklu fleiri færi og fengum möguleika til að gera út um leikinn í fyrri hálfleik," sagði Zoran Ljubicic þjálfari Keflvíkinga eftir 1-1 jafntefli við KR.

,,Auðvitað söknuðum við þess að hafa Frans. Við erum ekki með neitt svakalega breidd í liðinu, sérstaklega á miðjunni. Það voru 1-2 leikmenn sem voru tæpir og Frans er búinn að spila vel, en þessir sem fengu tækifærið í dag stóðu sig mjög vel."

,,Ég er mjög ánægður ungu strákana, en við verðum að hrósa eldri leikmönnum líka. Þeir eru mótorinn í liðinu og við megum ekki gleyma þeim. Það eru þeir sem gera þá ungu að betri leikmönnum."

,,Maður vill fá 1-2 leikmenn til að stækka hópinn, en staðan peningalega séð er ekkert það góð. Við höfum verið heppnir undafarið og höfum verið með fáa leikmenn í meiðslum, en maður veit aldrei hvað getur gerst."

,,Ég er sáttur með stöðu liðsins í dag, en við verðum að halda áfram. Fyrri hlutinn er búinn og núna verðum við halda áfram í næsta leik og eigum tvo næstu leiki heima. Ef við náum að klára þessa leiki þá erum við í góðum málum."

Fréttablaðið / Vísir
„Ef þú lendir undir er auðvitað gott að ná í stig en við lögðum upp með fyrir leikinn að ná í þrjú stig. Ég er bara svekktur að hafa ekki náð að nýta okkur betur spilamennskuna í fyrri hálfleik," sagði Guðmundur Steinarsson, markaskorari Keflavíkur eftir leikinn.

„Mér fannst við vera betri í opnu spili í dag, vorum að fá fleiri opin færi en vorum ekki að ná að nýta okkur það. Þeir voru góðir í föstu leikatriðunum og náðu að nýta sér eitt slíkt."

Eftir leikinn færðust Keflvíkingar upp í fjórða sætið, yfir ÍBV sem spiluðu í Evrópukeppninni í kvöld.

„Þetta er þéttur pakki og það má lítið út af bregða. Við þurfum núna að ná fleiri stigum, við erum í miðjunni af þriggja leikja heimaleikjarunu og við þurfum að ná í eins mörg stig og við getum til að tryggja stöðu okkar um miðja deild."

„Stöðugleikinn er að lagast hjá okkur, við erum ekki með brjálaða reynslu í efstu deild og margir að stíga sín fyrstu skref. Það er eðlilegt að þegar menn eru að stíga sín fyrstu skref þá verði þetta hálfgert jójó en vonandi kemur þetta núna."

Guðmundur skoraði í kvöld tólfta mark sitt gegn KR í deildarkeppninni og er hann lang markahæstur andstæðinga KR. Aðspurður sagðist honum finnast gaman að spila gegn þeim.

„Við erum aldir upp hérna í Keflavík við að leggja okkur extra mikið undir gegn KR og það þarf lítið til að peppa mann upp fyrir þessa leiki. Mér hefur alltaf liðið vel að spila á móti þeim."

„Þessir leikir eru alltaf skemmtilegir, að taka á móti liðum sem eru fyrirfram talin vera stærri liðin kryddar þetta alltaf. KR hefur verið eitt stærsta lið landsins síðustu ár og það er alltaf gaman að klekkja á þeim," sagði Guðmundur.

Ómar 6, Grétar Atli 7, Jóhann Ragnar 6, Gregor 7, Haraldur 6, Einar Orri 7, Arnór Ingvi 7 (Bojan Stefán -) , Denis 7, Sigurbergur 5 (Hilmar Geir -), Jóhann Birnir 5 (Daníel -), Guðmundur 7.

Morgunblaðið / Mbl.is
Þeir voru þolinmóðir í vörninni sem spilaði öll mjög vel og þá beittu þeir skyndisóknum. Arnór Yngvi Traustason heillaði undirritaðan í gær. Hann lék mjög vel fremstur á miðjunni og ógnaði markinu oft á tíðum. Hann átti líka skotið sem fór af varnarmanni og til reynsluboltans Guðmundar Steinarssonar sem skoraði jöfnunarmarkið. Arnór Yngvi hefur tekið miklum framförum frá síðustu leiktíð og ætti, ef allt fer að óskum fyrir hann, að vera lykilmaður í Keflavíkurliðinu það sem eftir lifir sumars. Hann hefur greinilega gott af því að spila með áður nefndum Guðmundi og Jóhanni Birni Guðmundssyni.

Keflvíkingar líta mun betur út en á sama tíma í fyrra og spila meiri sóknarbolta án þess þó að gefa eftir í vörninni, sérstaklega ef mið er tekið af þessum leik. Það sem liðið þarf er að safna nú fleiri stigum á heimavelli og þá ættu þeir að geta verið með í baráttunni í efri hluta deildarinnar. Þrátt fyrir að hafa verið spáð falli af mörgum sparkspekingum eru þeir hvergi af baki dottnir og hafa sýnt að það er hægt að byggja liðið að miklu leyti upp á heimamönnum. Blandan virðist vera jafn góð og malt og appelsín á jólunum og þjálfarinn Zoran Daníel Ljubicic er að gera góða hluti með Gunnar Oddsson sér við hlið.

MM: Arnór Ingvi.
M: Gregor, Einar Orri, Jóhann Birnir, Guðmundur.

Víkurfréttir / VF.is
Það kom í hlut gestanna að skora fyrsta markið en það gerði Emil Atlason fyrir KR á 57. mínútu. Keflvíkingar létu það ekki slá sig út af laginu og það tók aðeins sex mínútur að jafna leikinn. Guðmundur Steinarsson enn og aftur á markaskónum gegn Vesturbæjarliðinu og þrumaði knettinum í netið framhjá Hannesi Þór Halldórssyni markverði KR. Guðmundur hafði fengið boltann eftir að Arnór Yngvi Traustason hafði skotið í einn leikmann KR en þaðan barst boltinn til Guðmundar vinstra megin í teignum sem þrumaði á nærstöngina. Liðin skildu jöfn 1-1.
Myndasafn Víkurfrétta frá leiknum

 
Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 12. júlí 2012
Keflavík 1
(Guðmundur Steinarsson 63.)
KR 1 (Emil Atlason 57.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson,  Grétar Atli Grétarsson, Jóhann R. Benediktsson, Gregor Mohar, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Sigurbergur Elísson (Hilmar Geir Eiðsson 74.), Einar Orri Einarsson, Arnór Ingvi Traustason (Bojan Stefán Ljubicic 80.), Denis Selimovic, Jóhann Birnir Guðmundsson (Daníel Gylfson 84.), Guðmundur Steinarsson (63.) 
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Viktor Smári Hafsteinsson, Kristinn Björnsson, Magnús Þór Magnússon.
Gult spjald: Grétar Atli Grétarsson (39.), Jóhann Birnir Guðmundsson (66.), Gregor Mohar (90.).

Dómari: Guðmundur Ársæll Guðmundsson.
Aðstoðardómarar: Smári Stefánsson og Ingvar Örn Gíslason.
Varadómari: Birkir Sigurðarson.
Eftirlitsdómari: Þórarinn Dúi Gunnarsson.
Áhorfendur: 1340.
 

Myndir: Jón Örvar og Eygló.