Fréttir

Knattspyrna | 6. júní 2008

Jafntefli gegn Stjörnunni í Garðabæ

Keflavík sótti Stjörnuna heim s.l. þriðjudag í 4. umferð Landsbankadeildar kvenna þar sem liðin skildu jöfn 2-2.  Stjörnuvöllur hefur oftar en ekki verið okkur erfiður og því var von á hörkuleik.

Leikur liðanna einkenndist af mikilli baráttu þar sem hvorugt liðið ætlaði sér annað en sigur.  Liðin skiptust á að skapa sér færi, þó voru færi Keflavíkur öllu opnari.  Það dró til tíðinda á 31. mínútu leiksins þegar Guðrún Ólöf Ólsen skoraði sitt fyrsta mark í Landsbankadeild kvenna með góðu skoti eftir mikinn hamagang í teig Stjörnunnar, 0-1.  Það er gaman að geta þess að Guðrún Ólöf er á eldra ári í 3. flokki. Stjarnan gafst ekki upp og á 40. mínútu jöfnuðu þær með marki Gunnhildar Jónsdóttur eftir hornspyrnu, 1-1.  Ekki voru skoruð fleiri mörk í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur var ekki gamall þegar Guðrún Ólöf skoraði sitt annað mark á 48. mínútu.  Eftir frábæra sendingu frá Vesnu Smiljkovic frá hægri yfir á vinstri kant Guðrún tók við boltanum og skoraði með föstu skoti í hornið fjær, óverjandi fyrir markvörð Stjörnunnar, 1-2.  Mjög vel gert hjá Guðrún og Vesnu.  Stjarnan var þó ekki tilbúin að gefast upp og á 54. mínútu jöfnuðu þær þegar Gunnhildur Jónsdóttir skoraði sitt annað mark með föstu skoti utan af velli, 2-2.  Þar við við sat og ekki urðu mörkin fleiri og jafntefli því staðreynd.

Það var gott hjá Keflvík að fara í Garðabæinn og sækja eitt stig þó að þrjú stig hefðu alveg eins getað lent Keflvíkurmegin.  Það var mjög ánægjulegt að sjá hversu vel Guðrún Ólöf Ólsen stimplaði sig inn í leik Keflavíkur og er mikið efni þar á ferð.  Porca og Kjartan Einars þjálfarar eru mjög  duglegir að leyfa yngri leikmönnum okkar að spreyta sig með meistaraflokki.  Við eigum marga efnilega leikmenn sem eiga framtíðina fyrir sér.

Keflavík: Jelena, Ester, Björg Ásta, Rebekka (Helena 45.mín.), Linda, Guðrún, Eva (Björg Magnea 45.mín.), Danka, Vesna, Guðný (Íris 76.mín.).
Varamenn: Dúfa, Anna, Karen, Karitas.


Guðrún Ólöf Ólsen sækir að markmanni Blika fyrr í sumar.