Jafntefli hjá 4. flokki í fyrsta leik
Fyrsti leikur Keflvíkinga í úrslitakeppni 4. flokks var gegn Aftureldingu í gær. Afturelding er með gríðarlega sterkt lið og unnu þeir C-riðil Íslandsmótsins með ótrúlegum yfirburðum, þeir spiluðu 10 leiki og unnu þá alla og luku keppni með markatöluna 89 - 6!!!Leikur liðanna byrjaði rólega og fór að mestu fram á miðju vallarins. Fyrsta mark leiksins kom á 10. mínútu og þar var Björgvin Magnússon á ferðinni og kom hann Keflavík í 1-0. Eftir markið stjórnuðu Keflvíkingar leiknum en Afturelding reyndu hvað þeir gátu að skapa sér færi. Á 29.mínútu komst Keflavík í 2-0 og aftur var Björgvin á ferðinni með gott mark. Núna voru strákarnir komnir í þægilega stöðu, 2-0 yfir og allt stefndi í auðveldan sigur. Eða það héldu leikmenn Keflavíkur og voru steinsofandi þegar Afturelding minnkaði muninn einungis mínútu eftir mark Björgvins. Það leið síðan ekki nema ein mínúta þar til Afturelding hafði jafnað. Þeir þurftu ekki einu sinni að hafa fyrir því að jafna, heldur sáu Keflvíkingar um það fyrir þá með sjálfsmarki.
Keflvíkingar komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og voru staðráðnir að rífa sig upp og sóttu stíft. Á 46. mínútu gerðist mjög umdeilt atvik, Björgvin Magnússon fékk glæsilega sendingu inn fyrir vörnina, skallaði boltann framhjá markmanninum og í átt að markinu. Markmaðurinn sem fór út í Björgvin náði ekki boltanum, heldur skall harkalega á Björgvini sem féll niður. Flestir töldu að um vítaspyrnu hefði verið að ræða en dómari leiksins var ekki sammála og sleppti því að dæma. Ekki nóg með það, þegar Björgvin skallaði boltann að markinu þá skoppaði hann í átt að auðu markinu og það var síðan varnarmaður Aftureldingu sem hreinsaði boltann af marklínunni og töldu margir að boltann hefði verið kominn yfir marklínuna þegar hann hreinsaði frá. Í stað þess að vera 3-2 yfir þá lentu Keflvíkingar 2-3 undir þegar Afturelding skoraði mark í næstu sókn á eftir. Það hefur einkennt þetta Keflavíkurlið að gefast aldrei upp og ná að nýta mótlætið þegar illa gengur til rífa sig upp. Keflavíkurstrákarnir sóttu stíft eftir að hafa lent undir og markið lá í loftinu, það kom loksins þegar 10 mínútur voru til leiksloka og þvílíkt mark. Afturelding var með boltann í vörninni og engin hætta var á ferðinni eða það héldu þeir. Þá kom Björgvin Magnússon á ferðinni og hirti boltann af varnarmanninum alveg út við hliðarlínu. Björgvin sá að markmaðurinn var kominn aðeins út úr markinu og skaut hnitmiðuðu skoti yfir markmanninn og í autt markið, stórglæsilegt mark sem Björgvin átti alveg einn. Þrátt fyrir að Keflvíkingar sæktu stíft undir lokin og áttu meðal annars skot í þverslá, þá urðu mörkin ekki fleiri í leiknum. Reyndar hefði Afturelding getað stolið sigrinum þegar þeir áttu gott skot á lokamínútu leiksins en Þröstur Jóhannsson varði stórglæsilega í horn og lokastaðan varð 3-3.
Maður leiksins: Björgvin Magnússon. Björgvin átti hreinan stórleik, skoraði 3 mörk og nýtti færi sín frábærlega. Hann nýtti hraða sinn vel í leiknum, stakk varnarmenn Aftureldingu af hvað eftir annað og skapaði oft mikla hættu í vítateig Aftureldingu með sendingum sínum. Björgvin hefur núna skorað 13 mörk í 9 leikjum í Íslandsmótinu sem er frábær árangur.
Næsti leikur Keflvíkinga er í dag kl 16.30 á Njarðvíkurvelli. Þar mun liðið mæta Breiðablik sem er að flestum talið besta lið landsins í þessum aldursflokki. Breiðablik sigraði A-riðil, þeir léku 10 leiki og unnu 9 en töpuðu síðasta leiknum í riðlinum en þá höfðu þeir þegar tryggt sér 1. sætið. Við hvetjum alla til að mæta á völlinn og hvetja okkar menn. Áfram Keflavík.