Jafntefli í baráttuleik
Lið Keflavíkur náði ekki að klára riðlakeppni 1. deildar með fullt hús stiga, HK/Víkingur sá til þess í gærkveldi þegar liðin mættust á Keflavíkurvelli. Lokatölur leiksins gefa ekki rétta mynd af gangi mála því Keflavík réði gangi leiksins frá upphafi til loka leiks. Mótstaða og barátta liðs HK/Víkings var sú mesta sem liðið hefur fengið í sumar og voru þær gífurlega baráttuglaðar og duglegar að trufla allt spil Keflavíkur. Stelpurnar sóttu án afláts strax í upphafi leiks en gekk erfiðlega að brjóta aftur vörn gestanna. Um miðbik fyrri hálfleiks náði Ólöf Helga Pálsdóttir að komast fyrir fyrirgjöf og stýra boltanum í markið. Héldu allir að þar með myndu flóðgáttir opnast en upp úr einni af örfáu skyndisóknum skoraði HK/Víkingur eftir mikinn klaufaskap í vörninni. Fóru liðin inn í hálfleik með sitt markið hvort í veganesti. Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri með miklum sóknarþunga Keflavíkur og ekki leið á löngu áður en Guðný Þórðardóttir kom okkur yfir með góðu skoti utan úr teig. Áfram hélt pressan og leikmenn HK/Víkings komust varla fram yfir miðju. Inga Lára Jónsdóttir skoraði beint úr aukaspyrnu af 30-40 metra færi, mjög vel gert hjá Ingu. Nú heldu allir að lið HK/Víkings væri yfirbugað en sú var ekki raunin. Keflavík slakaði á klónni og gestirnir komust inn í leikinn. Þegar um 10 mínútu voru til leiksloka skoruðu HK/Víkingsstelpur eftir aukaspyrnu og þremur mínútum seinna jöfnuðu þær og stigu mikinn dans á vellinum. Það sem eftir lifði leiks reyndi Keflavík að setja sigurmarkið en ekki gekk það og jafntefli 3-3 staðreynd. Lið Keflavíkur er öruggt í úrslitakeppnina en HK/Víkingur er núna með það í hendi sér hvort það fari sem lið númer tvö með bestan árangur í úrslitakeppnina. Keflavík, ÍA og Sindri eru örugg í úrslit.
Hart barist í leiknum í gærkvöldi.
(Mynd: Héðinn Eiríksson / Víkurfréttir)