Fréttir

Jafntefli í fjörugum leik
Knattspyrna | 21. maí 2013

Jafntefli í fjörugum leik

Keflavík gerði jafntefli gegn Fylki þegar liðin mættust á Nettó-vellinum í 4. umferð Pepsi-deildarinnar.  Lokatölur urðu 2-2 í einstaklega skemmtilegum og fjörugum leik.  Keflavík byrjaði mun betur og náði forystunni þegar Arnór Ingvi Traustason skoraði.  Rétt fyrir leikhlé fengu gestirnir vítaspyrnu, Andri Fannar Freysson fékk rautt spjald fyrir brotið en David Preece gerði sér lítið fyrir og varði vítið.  Í upphafi seinni hálfleiks var komið að Keflavík að fá víti en það fór sömuleiðis forgörðum og skömmu síðar jafnaði Tryggvi Guðmundsson leikinn.  Þrátt fyrir að leika einum færri komust okkar menn aftur yfir þegar Hörður Sveinsson skoraði en aftur jöfnuðu gestirnir og að þessu sinni var það Ásgeir Eyþórsson sem tók það að sér.  Jafntefli niðurstaðan í fjörugum leik, svo ekki sé meira sagt.

Eftir leikinn er Keflavík með fjögur stig eftir fjórar umferðir.  Næsti leikur er útileikur gegn Val á Vodafone-vellinum sunnudaginn 26. maí kl. 19:15.

Leikskýrsla á KSÍ.is

  • Þetta var 31. leikur Keflavíkur og Fylkis í efstu deild.  Þetta var tíunda jafntefli liðanna, Keflavík hefur unnið 11 leiki og Fylkir 10.  Markatalan er 38-45 fyrir Fylki.
     
  • Arnór Ingvi Traustason og Hörður Sveinsson gerðu báðir fyrstu mörk sín í sumar.  Mark Arnórs Ingva var 7. mark hans í efstu deild í 37 leikjum.  Hörður gerði mark númer 34 fyrir Keflavík í efstu deild en þau hafa komið í 112 leikjum.
     
  • Jóhann Birnir Guðmundsson misnotaði vítaspyrnu í leiknum en Keflavík mistókst síðast að skora úr víti gegn Val í 18. umferð deildarinnar árið 2011.  Síðan hafði liðið skorað úr þremur vítum, tveimur í fyrra og svo í síðasta leik gegn Víking.