Fréttir

Knattspyrna | 10. ágúst 2006

Jafntefli í Frostaskjóli

Það var flott boltaveður í Frostaskjólinu í gærkvöldi þegar Keflavík heimsótti KR í 13. umferð Landsbankadeildarinnar.  Keflavík lék án Mete og Baldurs sem voru í leikbanni.  Liðið var því þannig skipað að var Ómar í markinu og Gaui hægri bakvörður, Hallgrímur kom í miðvörðinn með Kenneth og Branko lék sem vinstri bakvörður.  Á miðjunni voru Símun, Bói, Jónas og Stefán og frammi þeir Gummi og Maggi.  Blautur völlur og lognið til staðar.

Keflavík byrjaði fantavel og stjórnaði leiknum frá byrjun.  Strax á 10. mínútu skoraði Guðmundur Steinarsson gullfallegt mark, hann fékk þá frábæra stungusendingu frá Jónasi og setti boltann snilldarlega í fjærhornið framhjá Kristjáni í KR-markinu.  Áfram sótti Keflavík og voru eins og herforingjar á vellinum.  Magnús Sverrir átti skot í stöng á 23. mínútu og KR slapp fyrir horn.  KR-ingar sóttu í sig veðrið og urðu aðgangsharðir og áttu ágætis hálffæri þar til Grétar Ólafur Hjartarson (fæddur og uppalinn í Sandgerði - innskot höf.) skoraði með skalla af stuttu færi á 30. mínútu og staðan orðin 1-1.

Seinni hálfleikur byrjaði með látum og KR skoraði mark sem dæmt var af fyrir brot.  Magnús Sverrir komst í dauðafæri á 58. mínútu og var felldur inn í vítateig KR-inga en dómarinn dæmdi leikaraskap á Magnús þó þetta hafi klárlega verið vítaspyrna.  Þarna yfirsást dómaranum illilega og hefur sennilega verið með Fylkir-KR í huga.  KR-liðið tók völdin um tíma og voru illviðráðanlegir og pressu þeirra lauk með stórglæsilegu marki frá Björgólfi Takefusa sem kastaði sér fram og skallaði knöttinn í netið.  Staðan orðin 2-1 og satt að segja leit ekkert út fyrir að við myndum jafna leikinn.  Við fengum síðan aukaspyrnu á 80. mínútu rétt fyrir utan teiginn; Þórarinn og Guðmundur stilltu sér upp og Þórarinn setti hann glæsilega og staðan 2-2 sem maður var sáttur við þá.

Skrautlegasta atvik leiksins átti sér stað þegar nokkrar mínútur voru eftir.  Þórarinn fékk stungusendingu og var kominn einn inn fyrir og með varnarmann KR á hælunum.  Þórarinn ætlaði að láta boltann fara til Símun sem hefði verið í dauðafæri en KR-varnarmaðurinn braut illa á Þórarinn.  Refsingin var aðeins gult spjald þó brotið verðskuldaði augljóslega rautt spjaldi en dómarinn var á öðru máli.  Lokastaðan því 2-2 í hörkuleik.

JÖA

KR-völlur, 9. ágúst - Landsbankadeildin
KR 2 (Grétar Ólafur Hjartarson 27., Björgólfur Takefusa 65.)
Keflavík 2 (Guðmundur Steinarsson
11., Þórarinn Kristjánsson 80.)

Keflavík (4-4-2):
Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Kenneth Gustavsson, Hallgrímur Jónasson, Branko Milicevic - Stefán Örn Arnarson (Þórarinn Kristjánsson 51.), Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen - Magnús Þorsteinsson, Guðmundur Steinarsson
Varamenn: Magnús Þormar, Einar Orri Einarsson, Viktor Guðnason, Magnús Ólafsson, Ólafur Jón Jónsson, Þorsteinn Atli Georgsson
Gult spjald: Magnús Þorsteinsson (57.)

Dómari:
Garðar Örn Hinriksson
Aðstoðardómarar: Gunnar Gylfason og Leiknir Ágústsson
Varadómari: Gylfi Þór Orrason
Eftirlitsmaður: Hannes Þ. Sigurðsson
Áhorfendur: 1283


Guðmundur skorar fyrra markið með lúmsku skoti í fjærhornið.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)