Fréttir

Knattspyrna | 18. ágúst 2009

Jafntefli í Garðabænum

Sjöunda jafntefli Keflavíkur í Pepsí-deildinni kom í Garðabænum í gærkvöldi í markalausum leik gegn Stjörnunni.  Það var alveg með ólíkindum að Keflavík hafi ekki náð að skora í gær.  Okkar menn fengu fjölmörg tækifæri til að koma boltanum í netið en allt kom fyrir ekki.  Þetta var hörkuleikur hjá tveimur liðum sem ætluðu að selja sig dýrt eftir stigaleysi í undanförnum leikjum.  Keflavík hefur ekki skorað í 288 mínútur eða síðan Jóhann Birnir skoraði jöfnunarmarkið gegn Val á Hlíðarenda.  En það var margt mjög jákvætt sem strákarnir sýndu í gær þrátt fyrir að skora ekki.  Bjarni Hólm fékk ljótan skurð í andlitið eftir samstuð við Alen Sutej og þurfti að sauma einhver 20 sporí Bjarna.  Næsti leikur er gegn KR á laugardag á Sparisjóðsvellinum og má búast við hörkuleik eins og venjulega þegar þessi lið mætast.

Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson (Brynjar Örn Guðmundsson 70.), Haraldur Freyr Guðmundsson, Alen Sutej, Magnús Þorsteinsson (Haukur Ingi Guðnason 81.), Hólmar Örn Rúnarsson fyrirliði, Jón Gunnar Eysteinsson, Einar Orri Einarsson, Símun Samuelsen og Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Ómar Jóhannsson, Nicolai Jörgensen, Bessi Víðisson, Magnús Þórir Matthíasson, Sverrir Þór Sverrisson. 

Kristján þjálfari var í viðtali á fotbolti.net og birtum við það hér með leyfi:
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga var ekki alveg eins sáttur og Bjarni Jóhannsson, kollegi hans hjá Stjörnunni en gestirnir voru býsna óheppnir að taka ekki öll þrjú stigin í Garðabænum í kvöld.
,,Það er líka mitt mat að við höfum verið óheppnir. Við spiluðum fína vörn, góð barátta og þorum nægjanlega mikið í sókn til þess að eiga möguleika á að skora og fáum bæði dauðafæri og hálffæri. Við þurfum bara að vera aðeins ákveðnari í að skora. Auðvitað áttum við að vinna leikinn, það er enginn spurning," sagði Kristján Guðmundsson og bætti við.

,,Svona til að byrja með í upphafi leiksins eru við ekki alveg að taka réttar ákvarðanir en síðan þegar fór að líða á leikinn þá vorum við farnir að gera það og koma boltanum vel fyrir markið. En þá voru við ekki nógu ákveðnir að renna okkur í hann. Boltinn hreyfist öðruvísi á gervigrasinu og við náðum ekki alveg að reikna það nógu vel út," sagði Kristján svekktur að ná ekki öllum þremur stigunum til Keflavíkur.

Ljóst er að þetta er bragarbót á liði Keflavíkur frá síðustu tveimur leikjum þeirra en þeir eiga þó enn eftir að landa sínum fyrsta sigri á útivelli í sumar.
,,Jú, þetta er framför frá síðustu leikjum og ég held það hafi ekki þurft neitt ofboðslega mikið til. Núna sýndum við virkilega að við erum sterkt lið og unnum sem heild, varnarleikurinn fínn, vantaði bara mark. Það er aldrei að vita ef við hefðum skorað eitt þá hefðu fleiri fylgt í kjölfarið. En svona heilt yfir þá er ég ánægður með strákana," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur að lokum.


Ein af fjölmörgum sóknum að marki Stjörnumanna en allt kom fyrir ekki.