Fréttir

Knattspyrna | 7. apríl 2006

Jafntefli í skrautlegum leik

Keflavík gerði jafntefli við spænska liðið Aymonte í gær og skoraði hvort lið eitt mark.  Guðmundur fyrirliði kom okkar mönnum yfir með marki úr vítaspyrnu í upphafi leiksins.  Aymonte jafnaði svo skömmu fyrir leikslok.  Leikurinn var ekki sérlega góður; leikið var á hörðum velli og mikill vindur gerði leikmönnum liðanna erfitt fyrir.  Okkar strákar voru orðnir þreyttir og stífir eftir hörkuleik daginn áður og erfiðar æfingar síðustu daga.  Það kom vel í ljós undir lokin þegar einbeitingarleysi kostaði jöfnunarmarkið. 

Þess má geta að þjálfari Spánverjanna ákvað að lífga aðeins upp á leikinn með furðulegri uppákomu.  Hann var eitthvað ósáttur við frammistöðu íslenska dómaratríósins þrátt fyrir að Leiknir Ágústsson og aðstoðarmenn hans hefðu haft góð tök á leiknum.  Kappinn æddi inn á völlinn og lét öllum illum látum; smávaxinn sjúkraþjálfari liðsins bætti svo um betur, var kominn upp með hnefana og hótaði dómurunum öllu illu.  Að lokum tókst að róa mennina en þessi furðulega og tilefnislausa uppákoma kom eiginlega leikmönnum beggja liða í opna skjöldu.

Nokkur forföll voru í okkar liði í gær.  Miles, Hallgrímur, Stefán og Þórarinn voru frá vegna meiðsla og Jónas var veikur.  Magnús Þormar átti að standa í markinu í gær en í upphitun tóku gömul meiðsli sig upp hjá stráknum og hann varð að hvíla í leiknum.  Allir fengu að spreyta sig en byrjunarliðið var þannig skipað.

Keflavík (4-4-1-1): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Mihaita Curea, Branko Milicevic - Símun Samuelsen, Baldur Sigurðsson, Kenneth Gustafsson, Hólmar Örn Rúnarsson - Danny Severino - Guðmundur Steinarsson.



Fyrirliðinn setti mark og ekki í fyrsta sinn.