Jafntefli og tap gegn FH í úrslitakeppni 5. flokks - Leikið gegn Haukum í Keflavík á morgun
Úrslitakeppni 5. flokks fór af stað í dag og léku Keflavíkurpiltar gegn FH við flottar aðstæður á aðalvelli FH inga í Kaplakrika. Leikur A - liðsins var í járnum framan af. FH ingar voru meira með knöttinn en Keflvíkingar voru mjög agaðir í sínum varnarleik og gáfu engin færi á sér. Hins vegar áttu Keflvíkingar nokkrar mjög góðar skyndisóknir en náðu því miður ekki að nýta færin sín. Staðan í hálfleik 0 - 0. FH-ingar settu mark þegar um 5 mín. voru liðnar af síðari hálfleik. Eftir markið sóttu Keflvíkingar í sig veðrið og gerðu harða atlögu að marki FH en því miður án árangurs. FH piltarnir náðu að setja annað mark áður en yfir lauk og lokatölur 2 - 0. Piltarnir spiluðu mjög vel í leiknum en náðu því miður ekki að brjóta FH inga á bak aftur.
Leikskýrsla A - liðs.
Leikur B - liðsins byrjaði heldur illa. FH ingar komu af krafti inn í leikinn, öfugt við Keflvíkinga og var staðan orðin 2 - 0 eftir u.þ.b. 5 mín. leik og útlitið ekki bjart. En þá tóku Keflavíkurpiltarnir heldur betur við sér og settu í fluggír. Birkir Freyr Birkisson minnkaði muninn fyrir leikhlé og staðan í hálfleik því 2 -1. Keflvíkingar héldu áfram þar sem frá var horfið og sýndu gríðarlegan dugnað og baráttu. Það skilaði sér með marki frá Einari Þór Kjartanssyn og staðan orðin 2 - 2. Þrátt fyrir nokkur góð færi, Birkir Freyr fékk t.a.m. dauðafæri rétt fyrir leikslok þar sem skot hans rétt framan við markið fór beint á markvörð FH, voru ekki fleiri mörk skoruð og leikar fóru því 2 - 2. Drengirnir sýndu gríðarlega mikinn keppnisanda og voru óheppnir að innbyrða ekki sigur.
Leikskýrsla B - liðs.
Á morgun, laugardaginn 25. ágúst spila piltarnir við Hauka síðari leik sinn í riðlinum. Fólk er hvatt til þess að mæta á Aðalvöllinn við Hringbraut og hvetja drengina til sigurs.
A - liðið spilar kl. 15:30.
B - liðið spilar kl. 16:20.
ÁFRAM KEFLAVÍK !!
Axel Pálmi Snorrason fyrirliði A - liðsins átti mjög góðan leik í dag.
Á morgun reynir á Axel að leiða lið sitt til sigurs gegn Haukum.