Fréttir

Knattspyrna | 22. ágúst 2007

Jakob Már áfram á skotskónum

Eldri flokkur Keflavíkur spilaði í gær eftir langt hlé.  Leikið var gegn Breiðablik, margföldum Íslandsmeisturum í þessum flokki, í Fífunni í Kópavogi.  Keflavík átti undir högg að sækja í fyrri hálfleik einum leikmanni færri, þar sem ekki náðist að manna liðið!  Í síðari hálfleik var liðið orðið fullmannað og auk þess með tvo varamenn!  Blikar skoruðu fyrsta mark leiksins um miðbik fyrri hálfleiks og bættu svo öðru marki við í upphafi þess síðari.  Annað mark Blika var sérlega glæsilegt en þar var á ferðinni þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Keflavík, Salih Heimir Porca, hann skrúfaði boltann glæsilega af um 30 m. færi efst í markhornið.  Eftir þetta mark tók Keflavík öll völd á vellinum.  Það bar árangur þegar um 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en þá skoraði Jakob Már Jónharðsson með góðri afgreiðslu úr miðjum vítateignum.  Pressan á mark Blika þyngdist er á leikinn leið en erfitt reyndist að komast í gegnum sterka vörn þeirra.  Þegar 10 mínútur lifðu leiks var brotið á Margeiri Vilhjálmssyni eftir mikið harðfylgi í teig Blika og vítaspyrnudómur óumflýjanlegur.  Á punktinn steig markamaskínan Jakob Már Jónharðsson og setti boltann af miklu öryggi í net Blika, 2 - 2.  Það sem eftir lifði leiks sóttu Keflvíkingar mjög stíft að marki Blika og fengu t.a.m. algjört dauðafæri á síðustu andartökum leiksins en gott skot Jóhanns Magnússonar fór hárfínt framhjá.  Þar við sat og Keflvíkingar þar með búnir að tapa sínum fyrstu stigum í sumar. Þegar upp var staðið reyndist það Keflvíkingum dýrkeypt að leika manni færri í fyrri hálfleik.  Næsti leikur Keflvíkinga er gegn FH í Keflavík þriðjudaginn 28. ágúst.

Lið Keflavíkur: Ingvar Georgsson (m), Garðar Már Newmann, Georg Birgisson, Gunnar Magnús Jónsson, Ólafur Þór Gylfason, Ragnar Steinarsson, Jóhann B. Magnússon, Zoran Daníel Ljubicic, Kristján Geirsson, Gunnar Oddsson, Margeir Vilhjálmsson, Jakob Már Jónharðsson og Hjörtur Harðarson.

Staðan.


Jakob Már heldur áfram að raða inn mörkunum,
búinn að gera 9 mörk í þremur leikjum.