Jóhann í hundrað leikja klúbbinn
Leikurinn gegn Fylki á dögunum fer víst ekki í sögubækurnar hjá Keflavík en hann var þó tímamótaleikur hjá einum leikmanni. Jóhann Birnir Guðmundsson lék sinn 100. leik fyrir Keflavík í efstu deild þegar hann kom inn á sem varamaður í leiknum. Hann lék sinn fyrsta leik 24. september 1994 í 4-3 sigurleik gegn Þór á Akureyri í síðasta leik tímabilsins. Jóhann fór í atvinnumennsku árið 1997 en sneri aftur til Keflavíkur einum tíu árum seinna. Hann hefur skorað 25 mörk í leikjunum hundrað og er 11. markahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi.
Þess má geta að Jóhann er 30. leikmaðurinn í sögu Keflavíkur sem nær þeim áfanga að leika eitt hundrað leiki fyrir félagið í efstu deild. Það þarf ekki að taka fram að Guðmundur Steinarsson er þar efstur á lista með 217 leiki en af núverandi leikmönnum Keflavíkur er Magnús Þorsteinsson með 157 leiki, Guðjón Árni Antoníusson er með 149 leiki og Ómar Jóhannsson er kominn með 119 leiki.