KA - Keflavík á sunnudag
Keflavík leikur gegn KA í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar í ár og fer leikurinn fram á Akureyrarvelli á sunnudag kl. 14:00. Okkar menn eru allir til í slaginn fyrir utan Hafstein Rúnarsson sem á við hnémeiðsli að stríða og byrjar ekki að æfa fyrr en eftir mánaðarmót.
KA er það lið sem Keflavík hefur gengið hvað verst með í gegnum árin. Liðin hafa leikið 16 leiki í efstu deild; Keflavík hefur unnið 3 leik, KA hefur unnið 7 en sex leikjanna hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 22-26, norðanmönnum í vil. Keflavík vann síðast sigur á KA árið 1982 en liðin hafa reyndar ekki leikið marga leiki, á árunum 1990-2001 tókst þeim t.d. að vera alltaf sitt á hvað í A og B deild. Stærsti sigur Keflavíkur á KA er 5-0 sigur árið 1978 en þá léku liðin einmitt fyrst saman í efstu deild en á árum áður léku Akureyringar undir merkjum ÍBA. Stærsti ósigurinn gegn KA var 1-4 tap árið 2002.
Liðin hafa einnig leikið þrjá bikarleiki; Keflavík hefur unnið tvo þeirra en KA einn og markatalan er 6-2 fyrir okkur.
Einn leikmaður sem nú leikur með Keflavík hefur skorað gegn KA í deildarleik, það er Guðmundur Steinarsson en hann lék auk þess með KA-liðinu eitt leiktímabil.