Keflavík - Breiðablik á fimmtudag kl. 19:15
Eftir Evrópuleikinn í síðustu viku er aftur komið að Landsbankadeildinni þegar lið Breiðabliks kemur í heimsókn á Keflavíkurvöll fimmtudaginn 9. ágúst kl. 19:15. Þar verður væntanlega um hörkuleik að ræða. Blikar eru í 6. sæti deildarinnar með 14 stig og hafa verið að leika skemmtilega knattspyrnu í sumar. Keflavík er í 3.-4. sæti með 18 stig og vantar að sjálfsögðu stig til að halda í við toppliðin. Þess má geta að Branko verður í leikbanni í þessum leik og munar um minna því pilturinn hefur verið að leika vel í sumar. Það er aldrei að vita nema Guðmundur Steinars rifji upp gamla takta og fari í vinstri bakvörðinn í forföllum Branko. Svo skemmtilega vill til að næsti leikur er líka gegn Breiðabliki en liðin mætast í 8 liða úrslitum VISA-bikarsins þann 12. ágúst. Dómari á Keflavíkurvelli verður Garðar Örn Hinriksson, aðstoðardómarar hans verða Oddbergur Eiríksson og Frosti Viðar Gunnarsson en eftirlitsmaður KSÍ er Eyjólfur Ólafsson.
Keflavík og Breiðablik hafa leikið 41 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1971. Keflavík hefur unnið 19 leiki og Breiðablik 10 en átta leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 69-47 fyrir Keflavík. Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 5-0 sigur í fyrrasumar en Breiðablik vann 3-0 sigur á heimavelli árið 1982. Sjö leikmenn í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Blikum í efstu deild; Guðmundur Steinarsson hefur skorað fjögur mörk, Stefán Örn Arnarson og Baldur Sigurðsson tvö og þeir Þórarinn Kristjánsson, Símun Samúelsen, Marco Kotilainen og Guðjón Árni Antoníusson hafa skorað eitt mark hver. Þá skoraði Magnús Þorsteinsson þrjú mörk gegn Breiðabliki í B-deildinni árið 2003. Eins og sjá má hér að neðan hefur Keflavík unnið síðustu fjóra heimaleiki gegn Breiðablik í úrvalsdeild og þarf að fara aftur til ársins 1983 til að finna Blikasigur á Keflavíkurvelli í efstu deild.
Liðin hafa leikið fjóra leiki í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1961 og síðast árið 1994. Hvort liðið hefur unnið tvo leiki og er markatalan 12-3 fyrir Keflavík í þeim leikjum.
Fyrr í sumar mættust liðin á Keflavíkurvelli í 3. umferð Landsbankadeildarinnar og lauk þeim leik með 2-2 jafntefli. Kristján Óli Sigurðsson kom Blikum yfir en Masrco Kotilainen jafnaði. Magnús Páll Gunnarsson kom heimamönnum aftur yfir en Guðjón Árni Antoníusson jafnaði undir lok leiksins.
Nokkrir leikmenn hafa leikið með báðum þessum liðum og má þar nefna Kristján Brooks, Kjartan Einarsson, Helga Bentsson og Sigurjón Kristjánsson.
Úrslit í leikjum Keflavíkur og Breiðabliks í efstu deild í Keflavík hafa orðið þessi undanfarin ár:
2006 |
Keflavík - Breiðablik |
5-0 | Stefán Örn Arnarson 2 Baldur Sigurðsson 2 Símun Samuelsen | ||
2001 |
Keflavík - Breiðablik |
2-1 | Þórarinn Kristjánsson Haukur Ingi Guðnason | ||
2000 |
Keflavík - Breiðablik |
1-0 | Guðmundur Steinarsson | ||
1999 |
Keflavík - Breiðablik |
2-1 | Kristján Brooks 2 | ||
1996 |
Keflavík - Breiðablik |
1-1 | Haukur Ingi Guðnason | ||
1995 |
Keflavík - Breiðablik |
1-1 | Róbert Sigurðsson | ||
1994 |
Keflavík - Breiðablik |
4-0 | Óli Þór Magnússon 3 Ragnar Margeirsson | ||
1986 |
Keflavík - Breiðablik |
1-0 | Skúli Rósantsson | ||
1984 |
Keflavík - Breiðablik |
2-1 | Ragnar Margeirsson Ingvar Guðmundsson | ||
1983 |
Keflavík - Breiðablik |
0-2 |