Fréttir

Keflavík - Breiðablik á mánudag kl. 19:15
Knattspyrna | 11. maí 2014

Keflavík - Breiðablik á mánudag kl. 19:15

Þá er komið að næsta leik í Pepsi-deildinni og nú fáum við Breiðablik í heimsókn á Nettó-völlinn á mánudaginn en flautað verður til leiks kl. 19:15.  Það þarf varla að taka fram að okkar menn unnu fyrstu tvo leiki sína en Breiðablik er með eitt stig.  Blikar hafa reyndar mætt liðunum sem er almennt spáð að berjist um titilinn í sumar.  Dómari leiksins verður Þorvaldur Árnason, aðstoðardómarar hans verða Áskell Þór Gíslason og Óli Njáll Ingólfsson en eftirlitsmaður KSÍ er Guðmundur Sigurðsson. 

Keflavík og Breiðablik hafa leikið 50 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1971.  Keflavík hefur unnið 22 leik og Breiðablik 17 en ellefu leikjum hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 90-73 fyrir Keflavík.  Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 5-0 sigur árið 2006 en Breiðablik hefur þrisvar unnið 3-0.  Sjö leikmenn í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Blikum í efstu deild; Elías Már Ómarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson og Magnús Þorsteinsson hafa gert tvö mörk og Bojan Stefán Ljubicic, Hörður Sveinsson, Sigurbergur Elísson og  Magnús Þórir Matthíasson hafa skorað eitt mark hver.  Það er hins vegar Steinar Jóhannsson sem hefur gert flest mörk fyrir Keflavík gegn Breiðabliki í efstu deild eða átta og næstur er Ragnar Margeirsson með sjö mörk.

Keflavík og Breiðablik hafa leikið sjö leiki í næstefstu deild, fyrst árið 1957 og síðast árið 2003.  Keflavík vann sex leikjanna en Breiðablik einn og markatalan er 25-6 fyrir Keflavík.  Magnús Þorsteinsson skoraði þrjú mörk gegn Breiðabliki í B-deildinni árið 2003 og Hörður Sveinsson eitt. 

Liðin hafa leikið sjö leiki í bikarkeppni KSÍ, þann fyrsta árið 1961 og þann síðasta árið 2009.  Breiðablik hefur unnið fimm leiki en Keflavík tvo en markatalan er þó 17-12 fyrir Keflavík í bikarleikjum liðanna. 

Síðasta sumar léku liðin tvívegis í Peps-deildinni og þá vann Breiðablik báða leikina.  Leikurinn í  Keflavík fór 1-2 en þar skoraði Elías Már Ómarsson fyrir Keflavík en Guðjón Pétur Lýðsson og Andri Rafn Yeoman gerðu mörk gestanna.  Liðin mættust svo í Kópavogi í síðustu umferð í leik sem hafði litla þýðingu og þá unnu Blikar 3-2.  Elías Már Ómarsson og Bojan Stefán Ljubicic gerðu mörk Keflavíkur en Ellert Hreinsson, Árni Vilhjálmsson og Guðjón Pétur Lýðsson skoruðu fyrir Breiðablik.

Nokkrir leikmenn hafa leikið með báðum þessum liðum og má þar nefna Kristján Brooks, Kjartan Einarsson, Helga Bentsson og Sigurjón Kristjánsson.  Fyrir þetta sumar gekk svo Sindri Snær Magnússon í okkar raðir en hann lék með Blikum árið 2012 og í liði Breiðabliks eru tveir fyrrverandi leikmenn okkar, Stefán Gíslason og Gunnleifur Gunnleifsson.

Úrslit í leikjum Keflavíkur og Breiðabliks í Keflavík hafa orðið þessi undanfarin ár:

2012 Keflavík - Breiðablik 1-2 Elías Már Ómarsson
2012 Keflavík - Breiðablik 2-3 Hörður Sveinsson
Rafn Markús Vilbergsson
2011 Keflavík - Breiðablik 1-1 Jóhann Birnir Guðmundsson
2010 Keflavík - Breiðablik 0-2  
2009 Keflavík - Breiðablik 0-3  
2008 Keflavík - Breiðablik 3-1 Patrik Redo 2
Guðmundur Steinarsson
2007 Keflavík - Breiðablik 0-3  
2006 Keflavík - Breiðablik 5-0 Stefán Örn Arnarson 2
Baldur Sigurðsson 2
Símun Samuelsen
2001 Keflavík - Breiðablik 2-1 Þórarinn Kristjánsson
Haukur Ingi Guðnason
2000 Keflavík - Breiðablik 1-0 Guðmundur Steinarsson

Einn frægasti leikur Keflavíkur og Breiðabliks er 4-4 jafntefli liðanna í síðasta leik deildarinnar árið 1973.  Keflavík hafði þegar tryggt sér Íslandsmeistartitilinn en Breiðablik var fallið í 2. deild.  Sagan segir að Joe Hooly, hinn litríki þjálfari Keflavíkur, hafi verið svo ósáttur við frammistöðu liðsins í leiknum að hann neitað að mæta í sigurhátíð félagsins um kvöldið.
Smellið á fréttina fyrir neðan til að sjá stærri útgáfu.