Keflavík - Breiðablik á miðvikudag kl. 17:15
Miðvikudaginn 17. september koma Blikar í heimsókn og mæta okkar mönnum í 20. umferð Landsbankadeildarinnar. Leikurinn fer fram á Sparisjóðsvellinum og hefst kl. 17:15. Leikurinn skiptir miklu máli fyrir bæði lið; Keflavík berst við FH um sigur í deildinni en Breiðablik er í harðri baráttu um 3. sætið. Fyrir umferðina er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 43 stig en Breiðablik er í því 6. með 30 stig. Dómari leiksins verður Einar Örn Daníelsson, aðstoðardómarar hans verða Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Frosti Viðar Gunnarsson en eftirlitsmaður KSÍ er Helgi Þorvaldsson.
Keflavík og Breiðablik hafa leikið 39 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1971. Keflavík hefur unnið 19 leiki og Breiðablik 11 en níu leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 71-52 fyrir Keflavík. Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 5-0 sigur árið 2006 en Breiðablik vann 3-0 sigur á heimavelli árið 1982. Sex leikmenn í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Blikum í efstu deild; Guðmundur Steinarsson hefur skorað fjögur mörk og þeir Patrik Redo, Þórarinn Kristjánsson, Símun Samúelsen, Hólmar Örn Rúnarsson og Guðjón Árni Antoníusson hafa skorað eitt mark hver.
Keflavík og Breiðablik hafa leikið sjö leiki í næstefstu deild, fyrst árið 1957 og síðast árið 2003. Keflavík vann sex leikjanna en Breiðablik einn og markatalan er 25-6 fyrir Keflavík. Magnús Þorsteinsson skoraði þrjú mörk gegn Breiðabliki í B-deildinni árið 2003 og Hörður Sveinsson eitt.
Liðin hafa leikið sex leiki í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1961 og þann síðasta í sumar. Breiðablik hefur unnið fjóra leiki en Keflavík tvo en markatalan er þó 15-9 fyrir Keflavík í bikarleikjum liðanna. Guðmundur Steinarsson og Guðjón Árni Antoníusson hafa skorað bikarmörk gegn Blikum en þau komu í leik liðanna fyrr í sumar.
Fyrr í sumar mættust liðin í Landsbankadeildinni á heimavelli Blika í Kópavogi. Þeim leik lauk með 2-2 jafntefli. Blikar skoruðu sjálfsmark og síðan skoraði Patrik Redo fyrir Keflavík en Nenad Zivanovic og Arnar Grétarsson skoruðu fyrir heimamenn. Liðin léku einnig í 8 liða úrslitum VISA-bikarsins og þá vann Breiðablik 3-2 í Kópavogi. Guðmundur Steinarsson og Guðjón Árni Antoníusson skoruðu fyrir Keflavík en Jóhann Berg Gunnarsson skoraði tvö marka Breiðabliks og Magnús Páll Gunnarsson eitt.
Nokkrir leikmenn hafa leikið með báðum þessum liðum og má þar nefna Kristján Brooks, Kjartan Einarsson, Helga Bentsson og Sigurjón Kristjánsson.
Úrslit í leikjum Keflavíkur og Breiðabliks í efstu deild í Keflavík hafa orðið þessi undanfarin ár:
2007 | Keflavík - Breiðablik | 0-3 | |||
2006 |
Keflavík - Breiðablik |
5-0 | Stefán Örn Arnarson 2 Baldur Sigurðsson 2 Símun Samuelsen | ||
2001 |
Keflavík - Breiðablik |
2-1 | Þórarinn Kristjánsson Haukur Ingi Guðnason | ||
2000 |
Keflavík - Breiðablik |
1-0 | Guðmundur Steinarsson | ||
1999 |
Keflavík - Breiðablik |
2-1 | Kristján Brooks 2 | ||
1996 |
Keflavík - Breiðablik |
1-1 | Haukur Ingi Guðnason | ||
1995 |
Keflavík - Breiðablik |
1-1 | Róbert Sigurðsson | ||
1994 |
Keflavík - Breiðablik |
4-0 | Óli Þór Magnússon 3 Ragnar Margeirsson | ||
1986 |
Keflavík - Breiðablik |
1-0 | Skúli Rósantsson | ||
1984 |
Keflavík - Breiðablik |
2-1 | Ragnar Margeirsson Ingvar Guðmundsson |