Fréttir

Knattspyrna | 5. ágúst 2009

Keflavík - Breiðablik í undanúrslitum bikarsins

Keflavík mun mæta liði Breiðabliks í undanúrslitum VISA-bikars en dregið var í hádeginu í dag.  Leikurinn fer fram sunnudaginn 13. september kl. 16:15.  Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Fram og KR og leika þau daginn áður eða laugardaginn 12.  Undanúrslitaleikirnir fara báðir fram á Laugardalsvelli en okkar menn teljast heimaliðið í leiknum og hafa því fengið heimaleik í öllum fjórum bikarleikjum sumarsins.

Keflavík og Breiðablik hafa sex sinnum mæst í bikarkeppni KSÍ.  Liðin léku fyrst árið 1962 en þá léku bæðin liðin í 2. deild.  Keflavík vann þann leik 6-1.  Næst mættust liðin á bikarnum árið 1971 og þá sigruðu Blikar 2-1.  Þetta ár lék Breiðablik til úrslita í bikarkeppninni í fyrsta og eina skiptið en tapaði fyrir Víkingum í úrslitaleiknum.  Keflavík og Breiðablik léku síðan í 16 liða úrslitum árið 1973 og lauk þeim með 5-0 sigri Keflavíkur.  Steinar Jóhannsson skoraði þrennu í leiknum.  Þetta ár var komið að Keflavík að komast í bikarúrslit í fyrsta sinn en liðið tapaði úrslitaleiknum gegn Fram.  Næsti bikarleikur liðanna var ekki fyrr en árið 1994 þegar þau mættust í 16 liða úrslitum í Kópavogi.  Leiknum lauk með 0-0 jafntefli en heimamenn sigruðu í vítaspyrnukeppni, 4-3.  Liðin hafa svo mæst í 8 liða úrslitum bikarsins síðustu tvö ár, í bæði skiptin á heimavelli Breiðabliks sem hafa unnu 3-1 árið 2007 og 3-2 í fyrra.  Það er því kominn tími á Keflavíkursigur í bikarleik gegn Blikum og vonandi kemur hann í september.