Fréttir

Knattspyrna | 17. júní 2009

Keflavík - Einherji á fimmtudag kl. 20:00

Fimmtudaginn 18. júní leika Keflavík og Einherji frá Vopnafirði í 32 liða úrslitum VISA-bikarsins.  Leikur liðanna fer fram á Sparisjóðsvellinum í Keflavík og hefst kl. 20:00.  Þetta er fyrsti leikur okkar liðs í bikarnum í ár en þriðji leikur Einherja.  Liðið sigraði Boltafélag Norðfjarðar 10-0 í 1. umferðinni og Hugin 3-0 í þeirri næstu.  Lið Einherja tekur nú þátt í Íslandsmótinu að nýju eftir nokkurt hlé en félagið var síðast með árið 2004.  Liðið leikur í D-riðli 3. deildar og er þar í 2.-3. sæti með 7 stig eftir fjóra leiki.  Fyrirfram hljóta okkar menn að teljast sigurstranglegri en það þarf varla að minna knattspyrnuáhugamenn á að í bikarkeppnum getur allt gerst.  Dómari leiksins verður Hans Kristján Scheving, aðstoðardómarar þeir Ólafur Kjartansson og Haukur Erlingsson og eftirlitsmaður KSÍ er Guðmundur Sigurðsson.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um fyrri leiki Keflavíkur og Einherja enda er þetta fyrsti leikur liðanna.