Keflavík - FC Midtjylland á fimmtudag kl. 19:15
Keflavík og FC Midtjylland leika fyrri leik sinn í 1. umferð undankeppni Evrópukeppni félagsliða á fimmtudag kl. 19:15. Þessi leikur er heimaleikur okkar og fer auðvitað fram á Keflavíkurvelli en seinni leikurinn verður á heimavelli Dananna í Herning þann 2. ágúst. Dómari leiksins er frá Sviss og heitir Carlo Bertolini, aðstoðardómarar eru landar hans Antonio Luis Fernandez og Stefan Bühlmann en fjórði dómari er Daniel Wermelinger frá Liechtenstein. Eftirlitsmaður UEFA er Einar Halle frá Noregi.
Þess má geta að miðaverð á leikinn er 1.500 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir börn en árskort gilda ekki á leiki í Evrópukeppni.
Svæðið fyrir framan Íþróttahúsið við Sunnubraut verður lokað á leikdegi og því þurfa áhorfendur að koma að innganingum Fjölbrautaskólamegin. Við vekjum athygli á því að á Evrópuleikjum gilda strangar reglur um framkvæmd leiksins og öryggi á leikvöllum. M.a. verða allir áhorfendur að sitja í sætum sínum allan leikinn og stranglega bannað er að fara inn á lokuð svæði á vellinum. Við hvetjum áhorfendur til að virða þessar reglur og fylgja öllum tilmælum öryggisvarða og vallarþuls enda mega félög eiga von á sektum frá UEFA sé reglum ekki fylgt út í ystu æsar.