Keflavík - FH á sunnudag kl. 20:00
Það verður sannkallaður stórleikur á Keflavíkurvelli á sunnudag þegar Íslandsmeistarar FH koma í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 20:00 en hann verður sýndur beint á Sýn. Báðum liðum er spáð góðu gengi í Landsbankadeildinni í sumar og þau unnu bæði góða útisigra í 1. umferð mótsins. Það má því reikna með fjörugum leik og baráttan verður ekki síðri á pöllunum þar sem Puma-sveitin og FH-mafían takast á. Dómari leiksins verður Erlendur Eiríksson og aðstoðardómarar þeir Einar K. Guðmundsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson. Varadómari er Örvar Sær Gíslason og eftirlitsmaður KSÍ er Þórarinn Dúi Gunnarsson.
Keflavík og FH hafa leikið 34 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1975. Keflavík hefur unnið 8 leiki, FH hefur unnið 14 en jafntefli hefur orðið í 12 leikjum. Markatalan er 44-51, FH-ingum í vil. Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 6-1 sigur árið 1976 en stærsta tap gegn FH kom árið 1993 þegar FH vann 5-1 í Hafnarfirði. Fjórir leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn FH í efstu deild, Baldur Sigurðsson og Þórarinn Kristjánsson hafa skorað tvívegis og þeir Guðmundur Steinarsson og Magnús Þorsteinsson eitt mark hvor.
Liðin hafa einnig mæst sjö sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1972 en síðast árið 2000. Hvort lið hefur unnið 3 leiki en einum lauk með jafntefli. Markatalan er 7-5 fyrir Keflavík. Guðmundur Steinarsson hefur skorað eitt bikarmark gegn FH. Það var í leik liðanna árið 2000 sem lauk með 1-1 jafntefli áður en FH-ingar sigruðu í langri og strangri vítaspyrnukeppni.
Liðin mættust tvisvar síðasta sumar í Landsbankadeildinni. FH-ingar unnu 2-1 sigur á Kaplakrikavelli þar sem Atli Viðar Björnsson skoraði sigurmarkið í skrautlegum leik þar sem bæði liðin skoruðu sjálfsmark og okkar mönnum tókst ekki að skora úr tveimur vítaspyrnum. Keflavík vann hins vegar síðari leikinn 2-1 á Keflavíkurvelli. Baldur Sigurðsson skoraði bæði mörk okkar manna og sigurmarkið á síðustu mínútu leiksins en Atli Guðnason skoraði fyrir FH.
Nokkur tengsl hafa verið milli Keflavíkur og FH í gegnum árin. Þess má geta að Albert Guðmundsson og sonur hans Ingi Björn þjálfuðu bæði liðin á sínum tíma. Meðal leikmanna sem hafa leikið fyrir bæði liðin eru Þorsteinn Bjarnason, Jón Þorgrímur Stefánsson, Valþór Sigþórsson, Kristján Hilmarsson, Kristján Brooks og bræðurnir Daníel og Grétar Einarssynir.
Úrslit í leikjum Keflavíkur og FH í Keflavík hafa orðið þessi undanfarin ár:
2006 |
Keflavík - FH |
2-1 | Baldur Sigurðsson 2 | ||
2005 |
Keflavík - FH |
0-3 | |||
2004 |
Keflavík - FH |
0-1 | |||
2002 |
Keflavík - FH |
1-1 | Adolf Sveinsson | ||
2001 |
Keflavík - FH |
3-1 | Þórarinn Kristjánsson Haukur Ingi Guðnason Magnús Þorsteinsson | ||
1995 |
Keflavík - FH |
2-0 | Marco Tanasic Jóhann B. Guðmundsson | ||
1994 |
Keflavík - FH |
1-2 | Marco Tanasic | ||
1993 |
Keflavík - FH |
0-1 | |||
1989 |
Keflavík - FH |
1-2 | Kjartan Einarsson | ||
1987 |
Keflavík - FH |
1-0 | Peter Farrell |