Keflavík - FH, alvöru stórleikur á sunnudag
Það er skammt stórra högga á milli í knattspyrnunni þessa dagana og nú er komið að sannkölluðum stórleik í Keflavík. Eftir stutt landsleikjahlé fer Landsbankadeildin aftur af stað og Keflavík og FH mætast á Keflavíkurvelli á sunnudag kl. 18:00. Eins og allir vita er FH-liðið í efsta sæti deildarinnar en Keflavík í því þriðja og hafa þessi lið verið að leika góða knattspyrnu í sumar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um styrk FH innan vallar sem utan og það er því erfitt verkefni sem bíður okkar. En það má reikna með jöfnum og spennandi leik á sunnudaginn og ástæða til að hvetja stuðningsmenn Keflavíkur til að fjölmenna því það er ljóst að það munu hinir öflugu stuðningsmenn FH gera. Dómari leiksins verður Einar Örn Daníelsson, aðstoðardómarar þeir Eyjólfur Ágúst Finnsson og Einar K. Guðmundsson og eftirlitsmaður KSÍ er Páll Júlíusson .
Keflavík og FH hafa leikið 33 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1975. Keflavík hefur unnið 7 leiki, FH hefur unnið 14 en jafntefli hefur orðið í 12 leikjum. Markatalan er 42-50, FH-ingum í vil. Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 6-1 sigur árið 1976 en stærsta tap gegn FH kom árið 1993 þegar FH vann 5-1 í Hafnarfirði. Þrír leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn FH í efstu deild, Þórarinn Kristjánsson hefur skorað tvívegis og þeir Guðmundur Steinarsson og Magnús Þorsteinsso eitt mark hvor.
Liðin hafa einnig mæst sjö sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1972 en síðast árið 2000. Hvort lið hefur unnið 3 leiki en einum lauk með jafntefli. Markatalan er 7-5 fyrir Keflavík. Guðmundur Steinarsson hefur skorað eitt bikarmark gegn FH. Það var í leik liðanna árið 2000 sem lauk með 1-1 jafntefli áður en FH-ingar sigruðu í langri og strangri vítaspyrnukeppni.
Liðin mættust fyrr í sumar í 5. umferð Landsbankadeildarinnar og þá unnu FH-ingar 2-1 sigur á Kaplakrikavelli. Atli Viðar Björnsson skoraði sigurmarkið í skrautlegum leik þar sem bæði liðin skoruðu sjálfsmark og okkar mönnum tókst ekki að skora úr tveimur vítaspyrnum.
Nokkur tengsl hafa verið milli Keflavíkur og FH í gegnum árin. Þess má geta að Albert Guðmundsson og sonur hans Ingi Björn þjálfuðu bæði liðin á sínum tíma. Meðal leikmanna sem hafa leikið fyrir bæði liðin eru Þorsteinn Bjarnason, Jón Þorgrímur Stefánsson, Valþór Sigþórsson, Kristján Hilmarsson, Kristján Brooks og bræðurnir Daníel og Grétar Einarssynir.
Úrslit í leikjum Keflavíkur og FH í Keflavík hafa orðið þessi undanfarin ár:
2005 |
Keflavík - FH |
0-3 | |||
2004 |
Keflavík - FH |
0-1 | |||
2002 |
Keflavík - FH |
1-1 | Adolf Sveinsson | ||
2001 |
Keflavík - FH |
3-1 | Þórarinn Kristjánsson Haukur Ingi Guðnason Magnús Þorsteinsson | ||
1995 |
Keflavík - FH |
2-0 | Marco Tanasic Jóhann B. Guðmundsson | ||
1994 |
Keflavík - FH |
1-2 | Marco Tanasic | ||
1993 |
Keflavík - FH |
0-1 | |||
1989 |
Keflavík - FH |
1-2 | Kjartan Einarsson | ||
1987 |
Keflavík - FH |
1-0 | Peter Farrell | ||
1986 |
Keflavík - FH |
3-2 | Sigurjón Sveinsson Freyr Sverrisson Óli Þór Magnússon |