Fréttir

Keflavík - Fjölnir á fimmtudag kl. 20:00
Knattspyrna | 22. maí 2013

Keflavík - Fjölnir á fimmtudag kl. 20:00

Fimmtudaginn 23. maí er komið að fyrsta leiknum hjá kvennaliðinu okkar sem leikur í B-riðli 1. deildar kvenna í sumar.  Þá koma Fjölnisstúlkur í heimsókn á Nettó-völlinn en leikurinn hefst kl. 20:00.  Dómari leiksins verður Skúli Freyr Brynjólfsson og aðstoðardómarar þeir Svanlaugur Þorsteinsson og Sigurður Smári Hansson.

Það er ljóst að það verður við ramman reip að draga hjá stelpunum okkar í sumar en þess má geta að á fótbolti.net er þeim spáð 7. sæti af átta liðum í riðlinum.  Hópurinn er mjög ungur og rétt fyrir mót urðu þjálfaraskipti hjá liðinu.  Snorri Már Jónsson hætti þá vegna anna í starfi sínu og Elís Kristjánsson hljóp í skarðið og mun stýra liðinu í sumar. 

Við hvetjum stuðningsmenn Keflavíkur til að mæta á leiki kvennaliðsins og hvetja stelpurnar okkar til dáða.

  • Keflavík og Fjölnir léku fjóra leiki í A-deildinni á árunum 2007-2008.  Keflavík vann tvo þessara leikja og Fjölnir einn en einum leik lauk með jafntefli.  Markatalan var 9-2 fyrir Keflavík.
     
  • Liðin hafa tvívegis leikið í bikarkeppninni.  Árið 2007 vann Keflavík 3-1 sigur í undanúrslitum bikarsins en árið 2011 vann Fjölnir í 2. umferð keppninnar, 4-2.
     
  • Árið 2009 lék Keflavík þrívegis gegn sameiginlegu liði Fjölnis og Aftureldingar.  Afturelding/Fjölnir vann leiki liðanna í A-deildinni, 2-0 og 4-0 og liðið sigraði Keflavík einnig í bikarnum en þeim leik lauk 4-0.