Fréttir

Knattspyrna | 22. júní 2008

Keflavík - Fjölnir á mánudag kl. 19:15

Keflavík og Fjölnir mætast í 8. umferð Landsbankadeildarinnar mánudaginn 23. júní.  Leikur liðanna fer fram á Sparisjóðsvellinum í Keflavík og hefst kl. 19:15.  Það þarf varla að taka fram að Keflavík er nú í toppsæti deildarinnar með 18 stig úr sjö leikjum.  Liðið hefur unnið alla fjóra heimaleiki sína og okkar menn ætla að sjálfsögðu að halda áfram á sömu braut.  Nýliðar Fjölnis hafa verið að leika feykivel í sumar og eru í 3.-4. sæti Landsbankadeildarinnar með 12 stig eftir átta leiki.  Liðið hefur unnið Þrótt, KR, Grindavík og Fylki í sumar og er svo sannarlega til alls líklegt.  Dómari leiksins verður Garðar Örn Hinriksson, aðstoðardómarar Oddbergur Eiríksson og Jóhann Gunnar Guðmundsson og eftirlitsmaður KSÍ verður Eyjólfur Ólafsson. 

Leikurinn á mánudag verður fyrsti deildarleikur Keflavíkur og Fjölnis enda er Fjölnisliðið að leika í efstu deild í fyrsta sinn og í raun stutt síðan félagið fór að láta til sín taka í efri deildum Íslandsmótsins.  Liðin hafa einu sinni mæst í bikarkeppninni en það var árið 2005.  Liðin mættust þá í 32 liða úrslitum á Fjölnisvelli og vann Keflavík nauman 4-3 sigur.  Guðmundur Steinarsson skoraði tvö mörk og þeir Hólmar Örn Rúnarsson og Stefán Örn Arnarson eitt hvor.  Atli Guðnason skoraði tvö marka Fjölnis og Tómas Leifsson eitt.