Keflavík - Fjölnir á sunnudag kl. 19:15
Keflavík og Fjölnir mætast í 8. umferð Pepsi-deildarinnar sunnudaginn 21. júní. Leikur liðanna fer fram á Sparisjóðsvellinum í Keflavík og hefst kl. 19:15. Eins og stundum áður vilja bæði lið öll stigin úr þessum leik, Keflavík til að halda í við toppliðin en Fjölnir til að rífa sig upp af botninum. Fyrir leikinn er Keflavík í 6. sæti deildarinnar með 11 stig en Fjölnismenn eru í 11.-12. sæti með 4 stig. Dómari leiksins verður Eyjólfur M. Kristinsson, aðstoðardómarar Frosti Viðar Gunnarsson og Tomasz Jacek Napierajczyk og eftirlitsmaður KSÍ verður Örn Bjarnason.
Keflavík og Fjölnir hafa leikið tvo leiki í efstu deild en Fjölnismenn léku í fyrsta skipti í þeirri deild síðasta sumar. Niðurstaðan varð 1-2 útisígur í báðum leikjum liðanna. Fjölnismenn unnu á Sparisjóðsvellinum með mörkum frá Gunnari Má Guðmundssyni og Ólafi Páli Snorrasyni eftir að Guðmundur Steinarsson hafði komið Keflavík. Í seinni leiknum í Grafarvoginum kom Gunnar Már Guðmundsson heimamönnum yfir en Guðmundur Steinarsson og Jóhann B. Guðmundsson tryggðu okkar mönnum sigur.
Liðin hafa einu sinni mæst í bikarkeppninni en það var árið 2005. Liðin mættust þá í 32 liða úrslitum á Fjölnisvelli og vann Keflavík nauman 4-3 sigur. Guðmundur Steinarsson skoraði tvö mörk og þeir Hólmar Örn Rúnarsson og Stefán Örn Arnarson eitt hvor. Atli Guðnason skoraði tvö marka Fjölnis og Tómas Leifsson eitt.