Fréttir

Keflavík - Fram á  sunnudag kl. 18:00
Knattspyrna | 30. ágúst 2014

Keflavík - Fram á sunnudag kl. 18:00

Nú er komið að lokabaráttunni í Pepsi-deildinni og nú er komið að mikilvægum leik hjá okkar mönnum.  Á sunnudag er það heimaleikur gegn Fram í 18. umferð deildarinnar en leikurinn verður á Nettó-vellinum kl. 18:00.  Bæði lið berjast í neðri hluta deildarinnar og það er því mikið undir.  Fyrir leikinn er Keflavík í 8.-9. sæti deildarinnar með 19 stig en Fram er í 11. sætinu með 15 stig.  Við hvetjum auðvitað alla stuðningsmenn að mæta á völlinn og styðja strákana á lokasprettinum í ár.  Dómari leiksins verður Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, aðstoðardómarar þeir Jóhann Gunnar Guðmundsson og Haukur Erlingsson en eftirlitsmaður KSÍ er Jón Sigurjónsson.

Efsta deild
Keflavík og Fram hafa leikið 90 leiki í efstu deild.  Sá fyrsti fór fram árið 1958 og lauk með 2-2 jafntefli þar sem Högni Gunnlaugsson og Hólmbert Friðjónsson skoruðu fyrir Keflavík.  Nokkuð jafnræði hefur verið með liðunum í gegnum árin; Keflavík hefur unnið 35 leiki en Fram 28 og liðin hafa skilið jöfn 28 sinnum.  Markatalan er 136-121, okkar liði í vil.  Stærsti sigur Framara var 5-0 árið 2009 og Keflavík hefur þrisvar unnið með 5 marka mun; 5-0 árin 1965 og 2012 og 6-1 árið 2004.  Mesti markaleikur liðanna var þó 6-5 heimasigur Keflavíkur 1964 en það ár varð Keflavík einmitt Íslandsmeistari í fyrsta sinn. 
Sjö leikmenn sem í dag leika með Keflavík hafa skorað gegn Fram í efstu deild; Hörður Sveinsson hefur gert sex mörk, Jóhann B. Guðmundsson fjögur, Sigurbergur Elísson og Magnús Þorsteinsson hafa gert þrjú mörk og Einar Orri Einarsson, Bojan Stefán Ljubicic og Frans Elvarsson eitt hver.  Það er hins vegar Þórarinn Kristjánsson sem hefur gert flest mörk fyrir Keflavík gegn Fram í efstu deild eða 10, næstir koma feðgarnir Steinar Jóhannsson og Guðmundur Steinarsson með átta mörk hvor.

Bikarkeppnin
Liðin hafa leikið 12 leiki í bikarkeppninni og þar hafa Framarar betur.  Þeir hafa sigrað 7 sinnum en Keflavík 5 sinnum.  Markatalan er 16-18 fyrir Fram.  Hörður Sveinsson, Sindri Snær Magnússon og Magnús Þórir Matthíasson hafa skorað í bikarnum gegn Fram en þau mörk komu öll í 3-1 sigri Keflavíkur í 8 liða úrslitum keppninnar í ár.

Síðast
Liðin mættust í Pepsi-deildinni fyrr í sumar og þá á Laugardalsvelli.  Þeim leik lauk með 1-1 jafntefli þar sem Jóhann B. Guðmundsson kom Keflavík yfir en Ingiberg Ólafur Jónsson jafnaði fyrir Framara.

Bæði lið
Þó nokkrir leikmenn hafa leikið fyrir bæði lið þessi í gegnum árin.  Þar má nefna Ragnar heitinn Margeirsson, Paul McShane, Jón Gunnar Eysteinsson, Bjarna Hólm Aðalsteinsson, Andra Stein Birgisson, Guðmund Steinarsson, Helga Björgvinsson og Ólaf Pétursson.

Úrslit leikja Keflavíkur og Fram á heimavelli okkar hafa orðið þessi undanfarin ár:

2013 Keflavík - Fram 1-2 Sigurbergur Elísson
2012 Keflavík - Fram 5-0 Sigurbergur Elísson 2
Magnús Þorsteinsson
Hörður Sveinsson
Jóhann Benediktsson
2011 Keflavík - Fram  1-0 Arnór Ingvi Traustason
2010 Keflavík - Fram  1-1 Magnús Þorsteinsson
2009 Keflavík - Fram  1-0 Jóhann Birnir Guðmundsson
2008 Keflavík - Fram  1-2 Símun Samuelsen
2007 Keflavík - Fram  2-1 Þórarinn Kristjánsson
Baldur Sigurðsson
2005 Keflavík - Fram  2-1 Hörður Sveinsson
Guðmundur Steinarsson
2004 Keflavík - Fram  1-1 Þórarinn Kristjánsson
2002 Keflavík - Fram  1-1 Adolf Sveinsson

Leikurinn
Að þessu sinni rifjum við upp leik Keflavíkur og Fram sem fór fram á heimavelli okkar í ágúst árið 2000.  Leiknum lauk með 3-3 jafntefli en var sögulegur vegna þess að Guðmundur Steinarsson gerði öll mörk Keflavíkur í leiknum.  Þar áður hafði leikmaður Keflavíkur síðast skorað þrennu í efstu deild árið 1994.  Þrátt fyrir að 14 ár séu liðin frá leiknum eru tveir leikmenn sem léku með Keflavík enn að leika með liðinu.  Magnús Sverrir Þorsteinsson lék allan leikinn en Haraldur Freyr Guðmundsson kom inn á sem varamaður.  Meðal annarra leikmanna Keflavíkur í leiknum voru Gunnleifur Gunnleifsson, Gestur Gylfason, Ragnar Steinarsson, Zoran Ljubicic og Þórarinn Kristjánsson.
Að neðan má sjá umfjöllun Morgunblaðsins um leikinn.
Smellið á fréttina fyrir neðan til að sjá stærri útgáfu.