Fréttir

Knattspyrna | 13. júní 2007

Keflavík - Fram á fimmtudag

Keflavík tekur á móti liði Fram í 6. umferð Landsbankadeildarinnar fimmtudaginn 14. júní og hefst leikurinn kl. 19:15 á Keflavíkurvelli.  Framarar hafa átt erfitt uppdráttar það sem af er móti en þeir hafa m.a. þurft að berjast við meiðsli lykilmanna.  Liðið er nú í næstneðsta sæti deildarinnar með 2 stig.  Það er þó víst að Framarar eru sýnd veiði en ekki gefin og það má reikna með fjörugum leik.  Dómari leiksins verður Sævar Jónsson, aðstoðardómarar þeir Gunnar Gylfason og Jóhann Gunnar Guðmundsson en eftirlitsmaður KSÍ er Eyjólfur Ólafsson.

Keflavík og Fram hafa leikið 76 leiki í efstu deild.  Sá fyrsti fór fram árið 1958 og lauk með 2-2 jafntefli þar sem Högni Gunnlaugsson og Hólmbert Friðjónsson skoruðu fyrir Keflavík.  Nokkuð jafnræði hefur verið með liðunum í gegnum árin; Keflavík hefur unnið 28 leik en Fram 23 og liðin hafa skilið jöfn 25 sinnum.  Markatalan er 113-100, okkar liði í vil.  Stærsti sigur Framara var 4-0 árið 1979 en Keflavík hefur tvisvar unnið með 5 marka mun; 5-0 árið 1965 og 6-1 árið 2004.  Mesti markaleikur liðanna var þó 6-5 heimasigur Keflavíkur 1964 en það ár varð Keflavík einmitt Íslandsmeistari í fyrsta sinn.  Fjórir leikmenn sem í dag leika með Keflavík hafa skorað gegn Fram í efstu deild; Þórarinn Kristjánsson og Guðmundur Steinarsson hefur skorað sex mörk og þeir Magnús Þorsteinsson og Stefán Örn Arnarson eitt mark hvor.

Liðin hafa leikið 11 leiki í bikarkeppninni og þar hafa Framarar betur.  Þeir hafa sigrað 7 sinnum en Keflavík 4 sinnum.  Markatalan er 13-17 fyrir Fram. 

Keflavík og Fram mættust síðast í Landsbankadeildinni árið 2005 en síðasta sumar léku Framarar í 1. deild.  Keflavík vann báða leiki liðanna fyrir tveimur árum.  Keflavík vann 3-2 á Laugardalsvelli þar sem Stefán Örn Arnarson, Hólmar Örn Rúnarsson og Hörður Sveinsson skoruðu fyrir Keflavík en Guðjón Antoníusson (!) og Ingvar Ólason gerðu mörk Framara.  Keflavík vann síðan seinni leikinn 2-1 með mörkum frá Herði Sveinssyni og Guðmundi Steinarssyni en Andri Fannar Óttósson skoraði mark gestanna.

Okkur hefur gengið vel gegn Fram á heimavelli en Framarar unnu síðast í Keflavík árið 1989.  Síðan hafa liðin leikir ellefu sinnum þar í efstu deild og hefur Keflavík unnið fimm leiki en sex lokið með jafntefli.

Nokkrir leikmenn hafa leikið fyrir bæði lið þessi í gegnum árin.  Þar má nefna Ragnar heitinn Margeirsson og svo lék Guðmundur Steinarsson eitt tímabil fyrir Fram.

Úrslit leikja Keflavíkur og Fram á heimavelli okkar hafa orðið þessi undanfarin ár:

2005 Keflavík - Fram 2-1 Hörður Sveinsson
Guðmundur Steinarsson
  2004

Keflavík - Fram 

1-1 Þórarinn Kristjánsson
  2002

Keflavík - Fram 

1-1 Adolf Sveinsson
  2001

Keflavík - Fram 

1-1 Haukur Ingi Guðnason
Guðmundur Steinarsson
  2000

Keflavík - Fram 

3-3 Guðmundur Steinarsson 3
  1999

Keflavík - Fram 

2-1 Kristján Brooks
Gunnar Oddsson
  1998

Keflavík - Fram 

1-0 Þórarinn Kristjánsson
1997

Keflavík - Fram 

1-0 Haukur Ingi Guðnason
1995

Keflavík - Fram 

1-1 Kjartan Einarsson
1994

Keflavík - Fram 

2-2 Gunnar Oddsson
Sverrir Þór Sverrisson


Gunnar Oddsson skorar sigurmark gegn Fram á Keflavíkurvelli árið 1999.
Í markinu er Keflvíkingurinn Ólafur Pétursson.
(Mynd: Kristinn /
Morgunblaðið)