Keflavík - Fylkir á fimmtudag kl. 19:15
Fimmtudaginn 15. maí leika Keflavík og Fylkir í 2. umferð Landsbankadeildarinnar. Leikurinn fer fram á Sparisjóðsvellinum í Keflavík og hefst kl. 19:15. Okkar menn eru auðvitað staðráðnir í því að fylgja eftir góðum sigri á Val í 1. umferðinni en Fylkir tapaði þá fyrir Fram og það er ljóst að Árbæingar koma ákveðnir til leiks í Keflavík. Dómari leiksins verður Garðar Örn Hinriksson, aðstoðardómarar þeir Einar Sigurðsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson en eftirlitsmaður KSÍ er Jón Sigurjónsson.
Keflavík og Fylkir hafa leikið 20 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1989. Það er nokkuð jafnt á komið með liðunum í innbyrðis leikjum þeirra; Keflavík hefur unnið 7 leikjanna, jafnoft hefur orðið jafntefli en Fylkir hefur unnið 6 leiki. Markatalan er 25-27 fyrir Fylki. Stærsti sigur Fylkis er 4-0 árin 2007 og 2000 en Keflavík hefur mest náð að sigra Fylki með 2ja marka mun. Sex leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Fylkismönnum í efstu deild. Þórarinn Kristjánsson hefur skorað 4 mörk, Guðmundur Steinarsson 3 og þeir Hörður Sveinsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Guðjón Antoníusson og Símun Samuelsen hafa allir gert eitt mark.
Liðin mættust 8 sinnum í næstefstu deild á árunum 1981-1992. Keflavík vann 6 leiki, einum lauk með jafntefli og Fylkir vann einn leik. Markatalan í B-deildinni er 15-6 fyrir Keflavík.
Liðin hafa mæst þrisvar sinnum í bikarkeppni KSÍ, árin 1989, 1995 og 2004. Keflavík hefur unnið alla þrjá leikina og markatalan er 5-1. Þórarinn Kristjánsson hefur skorað eitt bikarmark gegn Fylki en það var eina markið í 8 liða úrslitum árið 2004 en Keflavík fór síðan alla leið og vann bikarinn.
Liðin mættust að sjálfsögðu tvívegis í Landsbankadeildinni á síðasta sumri. Keflavík vann fyrri leikinn á Keflavíkurvelli þar sem Símun Samuelsen skoraði eina mark leiksins. Síðari leikur liðanna fór fram á Fylkisvelli í næstsíðustu umferð deildarinnar. Þá var heldur farið að halla undan fæti hjá okkar mönnum og Fylkir vann 4-0. Albert Ingason skoraði þrennu eftir að Peter Gravesen hafði komið heimamönnum yfir. Sigurbergur Elísson kom inn á sem varamaður hjá Keflavík í leiknum og varð yngsti leikmaðurinn til að leika í efstu deild frá upphafi, 15 ára og 105 daga gamall.
Það er skemmst frá því að segja að Fylkir hefur aldrei náð að sigra í Keflavík í efstu deild. Liðin hafa nú leikið 10 sinnum í efstu deild á Keflavíkurvelli og hefur Keflavík unnið 6 leikjanna en fjögur jafntefli hafa litið dagsins ljós.
Úrslit í leikjum Keflavíkur og Fylkis í efstu deild í Keflavík hafa orðið þessi:
2007 |
Keflavík - Fylkir |
1-0 | Símun Samuelsen | ||
2006 |
Keflavík - Fylkir |
1-1 | Guðjón Antoníusson | ||
2005 |
Keflavík - Fylkir |
2-2 | Sjáfsmark Stefán Örn Arnarson | ||
2004 |
Keflavík - Fylkir |
4-2 | Þórarinn Kristjánsson 2 Haraldur Freyr Guðmundsson Hörður Sveinsson | ||
2002 |
Keflavík - Fylkir |
3-1 | Jóhann Benediktsson Guðmundur Steinarsson Þórarinn Kristjánsson | ||
2001 |
Keflavík - Fylkir |
2-1 | Haukur Ingi Guðnason Guðmundur Steinarsson | ||
2000 |
Keflavík - Fylkir |
1-1 | Hjálmar Jónsson | ||
1996 |
Keflavík - Fylkir |
0-0 | |||
1993 |
Keflavík - Fylkir |
2-1 | Róbert Sigurðsson Óli Þór Magnúson | ||
1989 |
Keflavík - Fylkir |
1-0 | Jóhann B. Magnússon |