Keflavík - Fylkir á laugardag kl. 14:00
Stelpurnar okkar hefja leik í Pepsi-deildinni laugardaginn 9. maí. Þá koma Fylkisstúlkur í heimsókn á Sparisjóðsvöllinn og verður flautað til leiks kl. 14:00. Eins og fram hefur komið hafa margir reyndustu leikmenn Keflavíkur yfirgefið liðið frá síðasta sumri og enginn erlendur leikmaður mun leika með liðinu á þessu keppnistímabili. Það er því ljóst að yngri leikmenn taka við keflinu í sumar og því veitir ekki af stuðningi áhorfenda á leikjum sumarsins. Við hvetjum stuðningsmenn til að láta sjá sig á vellinum og styðja stelpurnar okkar til dáða.
Eins og undanfarin ár ætla samstarfsfyrirtæki að styrkja heimaleiki kvennaliðsins í sumar. Fyrsti leikurinn er DHL-leikurinn en þessi stuðningur þýðir m.a. að ókeypis er inn á heimaleiki liðsins.