Fréttir

Knattspyrna | 28. ágúst 2011

Keflavík - Fylkir á mánudag kl. 18:00

Mánudaginn 29. ágúst leika Keflavík og Fylkir í 17. umferð Pepsi-deildarinnar.  Leikurinn fer fram á Nettó-vellinum í Keflavík og hefst kl. 18:00.  Bæði liðin eru í ströggli í neðri hluta deildarinnar og hafa ekki riðið feitum hesti frá síðustu leikjum.  Því er hér um sannkallaðan sex stiga leik að ræða.  Fyrir umferðina er Keflavík í 8.-10. sæti með 17 stig en Fylkir í 6.-7. sæti með 19 stig.  Dómari leiksins verður Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, aðstoðardómar þeir Smári Stefánsson og Ásgeir Þór Ásgeirsson og Jón Sigurjónsson er eftirlitsmaður KSÍ.

Keflavík og Fylkir hafa leikið 27 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1989.  Það er nokkuð jafnt á komið með liðunum í innbyrðis leikjum þeirra; Keflavík hefur unnið 11 leikjanna, átta sinnum hefur orðið jafntefli en Fylkir hefur unnið 8 leiki.  Markatalan er 34-38 fyrir Fylki.  Stærsti sigur Fylkis er 4-0 árin 2007 og 2000 en Keflavík hefur mest náð að sigra Fylki með 2ja marka mun.  Fimm leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Fylkismönnum í efstu deild.  Guðmundur Steinarsson hefur skorað átta mörk, Jóhann B. Guðmundsson tvö og þeir Magnús Þorsteinsson, Guðjón Antoníusson og Haraldur Freyr Guðmundsson hafa gert eitt mark hver.

Liðin mættust 8 sinnum í næstefstu deild á árunum 1981-1992.  Keflavík vann 6 leiki, einum lauk með jafntefli og Fylkir vann einn leik.  Markatalan í B-deildinni er 15-6 fyrir Keflavík.

Liðin hafa mæst þrisvar sinnum í bikarkeppni KSÍ, árin 1989, 1995 og 2004.  Keflavík hefur unnið alla þrjá leikina og markatalan er 5-1. 

Liðin mættust á heimavelli Fylkis í 6. umferð deildarinnar og þá unnu heimamenn 2-1.  Jóhann B. Guðmundsson gerði mark Keflavíkur en Ingimundur Níels Óskarsson gerði bæði mörk Fylkis.

Það hefur ekki verið mikill samgangur milli félaganna tveggja í gegnum árin.  Þórir Sigfússon þjálfaði reyndar bæði liðin á sínum tíma og Haukur Ingi Guðnason hefur leikið með báðum liðum.  Þó má ekki gleyma að núverandi aðstoðarþjálfari Fylkis er Keflvíkingurinn Kristinn Guðbrandsson.

Það er skemmst frá því að segja að Fylkir hefur aldrei náð að sigra í Keflavík í efstu deild.  Liðin hafa leikið 13 sinnum í efstu deild á heimavelli okkar og hefur Keflavík unnið 9 leikjanna en fjögur jafntefli hafa litið dagsins ljós.

Úrslit í leikjum Keflavíkur og Fylkis í efstu deild í Keflavík hafa orðið þessi:

2010

Keflavík - Fylkir

2-1 Guðmundur Steinarsson
Magnús Þorsteinsson
2009

Keflavík - Fylkir

1-0 Hólmar Örn Rúnarsson
2008

Keflavík - Fylkir

2-1 Hólmar Örn Rúnarsson
Guðmundur Steinarsson
2007

Keflavík - Fylkir

1-0 Símun Samuelsen
2006

Keflavík - Fylkir

1-1 Guðjón Antoníusson
2005

Keflavík - Fylkir

2-2 Sjálfsmark
Stefán Örn Arnarson
     2004    

Keflavík - Fylkir

4-2 Þórarinn Kristjánsson 2
Haraldur Freyr Guðmundsson
Hörður Sveinsson
2002

Keflavík - Fylkir

3-1 Jóhann Benediktsson
Guðmundur Steinarsson
Þórarinn Kristjánsson
2001

Keflavík - Fylkir

2-1 Haukur Ingi Guðnason
Guðmundur Steinarsson
2000

Keflavík - Fylkir

1-1 Hjálmar Jónsson
1996

Keflavík - Fylkir

0-0
1993

Keflavík - Fylkir

2-1 Róbert Sigurðsson
Óli Þór Magnúson
1989

Keflavík - Fylkir

1-0 Jóhann B. Magnússon