Fréttir

Knattspyrna | 8. ágúst 2004

Keflavík - Fylkir í dag kl. 18:00

Í dag leika Keflavík og Fylkir á Keflavíkurvelli og við vekjum athygli á því að leikurinn hefst kl. 18:00.  Liðin er geysimikilvægur fyrir bæði lið; Fylkir er nú í 3. sæti deildarinnar með 20 stig og þarf á stigum að halda til að halda í við FH og ÍBV í toppbaráttunni.  Keflavík er í 6. sæti með 15 stig og þarf sömuleiðis stigin til að halda í við liðin í efri hlutanum.

Það er athyglisvert að í 11 heimsóknum til Keflavíkur hefur Fylkismönnum aðeins tekist að sigra einu sinni í deild og bikar; það var leikur í B-deild árið 1990.  Liðin hafa leikið sex sinnum í efstu deild á Keflavíkurvelli og hafa gestirnir aldrei farið með öll stigin heim.

Keflavík og Fylkir hafa mæst 13 sinnum í efstu deild; bæði liðin hafa unnið fjóra leiki en fimm leikjum hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 15-19, Fylki í vil.  Þegar liðin léku fyrr í sumar vann Fylkir 2-0 í Árbænum.


Frá bikarleiknum í vikunni.
(Mynd: Þorgils Jónsson /
Víkurfréttir)

Liðin hafa einnig leikið 8 leiki í B-deild, fyrst 1981 en síðast 1992.  Þar hefur Keflavík sex sinnum farið með sigur af hólmi, Fylkismenn aðeins einu sinni en einum leik lauk með jafntefli.  Markatalan er 15-5, okkur í hag.

Keflavík hefur þrisvar mætt Fylki í bikarkeppninni og unnið alla leikina og markatalan er 5-1.  Þau mættust einmitt á dögunum í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar og þá unnum við 1-0.

Tveir leikmenn sem nú leika með Keflavík hafa skorað gegn Fylki í deildarleik.  Guðmundur Steinarsson og Þórarinn Kristjánsson hafa báðir skorað tvívegis gegn Fylkismönnum í efstu deild.  Þórarinn hefur einnig skorað eitt bikarmark gegn Fylki eins og fólki ætti að vera í fersku minni.  Þess má geta að Haukur Ingi Guðnason hefur einnig skorað tvívegis gegn Fylki fyrir Keflavík en hann er nú í röðum Fylkismanna þó Haukur sé nú úr leik vegna meiðsla.

Leikir liðanna í Keflavík í efstu deild:
 

     2002    

Keflavík - Fylkir

3-1 Jóhann Benediktsson, Guðmundur Steinarsson, Þórarinn Kristjánsson
2001

Keflavík - Fylkir

2-1 Haukur Ingi Guðnason, Guðmundur Steinarsson
2000

Keflavík - Fylkir

1-1 Hjálmar Jónsson
1996

Keflavík - Fylkir

0-0
1993

Keflavík - Fylkir

2-1 Róbert Sigurðsson, Óli Þór Magnússon
1989

Keflavík - Fylkir

1-0 Jóhann B. Magnússon

(Heimild: Íslensk knattspyrna / Víðir Sigurðsson)

Sjá upplýsingapakka um leikinn á heimasíðu KSÍ (pdf.-skjal).