Fréttir

Knattspyrna | 13. júní 2010

Keflavík - Haukar á mánudag kl. 19:15

Mánudaginn 14. júní leika Keflavík og Haukar í 7. umferð Pepsi-deildarinnar.  Leikurinn fer fram á Njarðtaksvellinum í Njarðvík og hefst kl. 19:15.  Þetta er nokkuð sögulegur leikur en liðin léku síðast í efstu deild árið 1979 en það er eina skiptið sem Haukar hafa leikið þar.  Fyrir leikinn er  Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 13 stig en Haukar eru í því 11. með 2. stig.  Dómari leiksins verður vinur okkar allra Einar Örn Daníelsson, aðstoðardómarar þeir Jóhann Gunnar Guðmundsson og Jón Magnús Guðjónsson en eftirlitsmaður KSÍ er Ólafur Ragnarsson.

Það þarf ekki að eyða löngum tíma í að ræða fyrri leiki Keflavíkur og Hauka í efstu deild en þeir eru aðeins tveir og voru leiknir árið 1979.  Þá lauk fyrri leiknum með markalausu jafntefli á heimavelli Hauka á Hvaleyrarholti.  Keflavík vann svo sinn heimaleik 4-1 þar sem Steinar Jóhannsson skoraði þrjú mörk og Ragnar Margeirsson eitt.

Liðin mættust 6 sinnum í næstefstu deild 1981, 1991 og 2003.  Keflavík vann alla leikina og markatalan er í B-deildinni er 24-2 fyrir Keflavík.  Þrír leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur skoruðu gegn Haukum árið 2003, þeir Magnús Þorsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson og Guðjón Antoníusson.

Liðin hafa mæst tvisvar sinnum í bikarkeppni KSÍ, árin 1990 og 1992.  Keflavík vann báða leikina, samanlagt 7-0. 

Það hefur ekki verið mikill samgangur milli félaganna tveggja í gegnum árin.  Willum Þór Þórsson þjálfaði auðvitað Hauka fyrir nokkrum árum og Ómar Karl Sigurðsson lék með félaginu um árabil, m.a. undir stjórn Willums.  Í Haukaliðinu nú er svo Guðmundur Viðar Mete sem er okkur Keflvíkingum að góðu kunnur og einnig Hilmar Trausti Arnarsson sem var í okkar herbúðum fyrir nokkrum árum.