Keflavík - HK á miðvikudag kl. 19:15
Miðvikudaginn 6. ágúst leika Keflavík og HK í 14. umferð Landsbankadeildarinnar. Leikurinn fer fram á Sparisjóðsvellinum í Keflavík og hefst kl. 19:15. Það er óhætt að segja að liðin berjist á hvorum enda deildarinnar; fyrir leikinn er Keflavík í 2. sæti með 27 stig en HK er í neðsta sæti deildarinnar með 5 stig. Það verður því væntanlega hart tekist á því bæði lið þurfa nauðsynlega á stigunum að halda. Dómari leiksins verður Þorvaldur Árnason, aðstoðardómarar þeir Sigurður Óli Þórleifsson og Vilhjálmur Alvar Þórarinsson en eftirlitsmaður KSÍ er Egill Már Markússon.
Keflavík og HK hafa ekki leikið marga leiki í opinberum keppnum enda stutt síðan Kópavogsliðið fór að láta verulega til sín taka í efri deildunum. HK lék í fyrsta skipti í efstu deild síðasta sumar og þá léku liðin tvö leiki eins og lög gera ráð fyrir. Keflavík vann fyrri leikinn á Keflavíkurvelli 3-0 þar sem Þórarinn Kristjánsson, Símun Samuelsen og Guðmundur Steinarsson skoruðu mörkin. Í seinni umferð Landsbankadeildarinnar var fátt um fína drætti hjá okkar mönnum og þeir töpuðu 1-2 á Kópvogsvelli þar sem Guðmundur Steinarsson skoraði. Fyrr í sumar léku liðin í 3. umferð deildarinnar á heimavelli HK-manna. Keflavík vann þann leik 2-1 með mörkum frá Jóni Gunnari Eysteinssyni og Patrik Redo.
Liðin mættust í næstefstu deild árið 2003 og þá vann Keflavík báða leikina. Leikurinn á Kópavogsvelli fór 5-1; Magnús Þorsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Þórarinn Kristjánsson, Hörður Sveinsson og Scott Ramsay gerðu mörkin. Lokatölurnar í seinni leiknum í Keflavík urðu 7-0. Þar skoraði Þórarinn Kristjánsson tvö mörk og Hólmar Örn Rúnarsson, Ólafur Ívar Jónsson, Magnús Þorsteinsson, Kristján Jóhannsson og Hörður Sveinsson eitt mark hver.
Liðin hafa mæst tvisvar sinnum mæst í bikarkeppni KSÍ, árin 2004 og 2005. Fyrra árið léku liðin í undanúrslitum keppninnar á Laugardalsvelli og lauk leiknum með 1-0 sigri Keflavíkur en HK-menn skoruðu reyndar sjálfsmark. Keflavík vann svo bikarinn með 3-0 sigri á KA í úrslitaleiknum. Árið eftir mættust liðin í 16 liða úrslitum og þá var komið að HK að vinna 1-0.
Þess má geta að tveir leikmenn HK hafa leikið fyrir Keflavík. Gunnleifur Gunnleifsson stóð í markinu hjá okkur árin 2000 og 2001. Ásgrímur Albertsson hafði stutta viðdvöl í Keflavík árið 2005 en skipti aftur yfir í HK um mitt sumar. Einnig hefur Jón Þorgrímur Stefánsson leikið fyrir bæði félögin.