Keflavík - ÍA á laugardag kl. 14:00
Keflavík og ÍA mætast í 18. og síðustu umferð Landsbankadeildarinnar á laugardaginn. Leikurinn hefst kl. 14:00 á Keflavíkurvelli. Leikurinn skiptir litlu máli fyrir Keflavík sem er og verður í 6. sæti deildarinnar en Skagamenn eru í harðri baráttu við Fylki um 3. sætið í deildinni. Dómari leiksins verður Kristinn Jakobsson, aðstoðardómarar hans verða Oddbergur Eiríksson og Sverrir Gunnar Pálmason, varadómari er Erlendur Eiríksson og Eyjólfur Ólafsson er eftirlitsmaður KSÍ.
Keflavík og ÍA hafa mæst 82 sinni í efstu deild og hafa Skagamenn talsverða yfirburði í viðureignum liðanna. Liðin mættust fyrst árið 1958 þegar við lékum fyrst í efstu deild. Akranes vann þann leik 5-1 en Högni Gunnlaugsson skoraði mark Keflavíkur. Alls hefur ÍA sigrað í 46 leikjum, 11 sinnum hefur orðið jafntefli en Keflavík hefur unnið 25 leiki. Markatalan er 94-171, Skagamönnum í vil. Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 4-1 sigur árið 1973 en stærsta tapið var 0-9 tap árið 1959 en það er stærsta tap Keflavíkur í efstu deild. Fimm leikmenn í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn ÍA í efstu deild; Þórarinn Kristjánsson hefur skorað fjögur mörk, Guðmundur Steinarsson tvö og Hallgrímur Jónasson, Guðjón Antoníusson og Magnús Þorsteinsson eitt mark hver.
Liðin mættust tvisvar í næstefstu deild en það var árið 1991. Skagamenn unnu báða leikina og markatalan var 1-6.
Keflavík og ÍA hafa leikið 13 leiki í bikarkeppninni, fyrst árið 1960 og síðast í fyrra. Keflavík hefur unnið 5 leikjanna en ÍA 7 en einum lauk með jafntefli. Markatalan er 16-19 fyrir ÍA. Tveir leikmenn Keflavíkur hafa skorað bikarmark gegn ÍA; Guðmundur Steinarsson hefur skorað tvö og Þórarinn Kristjánsson eitt en þessi mörk komu að sjálfsögðu öll í mögnuðum bikarleik liðanna síðasta sumar.
Liðin mættust fyrr í sumar í 9. á Akranesvelli. Þá sigruðu Skagamenn 2-1 með tveimur mörkum frá Bjarna Guðjónssyni en Hallgrímur Jónasson skoraði fyrir Keflavík.
Í gegnum árin hafa nokkir leikmenn leikið með báðum þessum liðum og má þar nefna Bjarna Sigurðsson og Kristján Jóhannsson. Bjarki Freyr Guðmundsson sem nú leikur með Keflavík stóð í marki Skagamann tvö síðustu leiktímabil.
Úrslit í leikjum Keflavíkur og ÍA í Keflavík hafa orðið þessi í efstu deild undanfarin ár:
2006 |
Keflavík - ÍA |
0-1 | |||
2005 |
Keflavík - ÍA |
0-1 | |||
2004 |
Keflavík - ÍA |
0-2 | |||
2002 |
Keflavík - ÍA |
0-2 | |||
2001 |
Keflavík - ÍA |
0-1 | |||
2000 |
Keflavík - ÍA |
0-2 | |||
1999 |
Keflavík - ÍA |
2-0 | Eysteinn Hauksson Kristján Brooks | ||
1998 |
Keflavík - ÍA |
0-1 | |||
1997 |
Keflavík - ÍA |
1-1 | Þórarinn Kristjánsson | ||
1996 |
Keflavík - ÍA |
0-3 |