Fréttir

Knattspyrna | 20. ágúst 2005

Keflavík - ÍA á sunnudag kl. 18:00

Keflavík leikur gegn ÍA í Landsbankadeildinni sunnudaginn 21. ágúst og verður flautað til leiks kl. 18:00.  Leikurinn gæti ráðið miklu um framhaldið í baráttu liðanna um 3. sæti Landsbankadeildarinnar.  Nú þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir af mótinu er Keflavík í 3. sætinu með 21 stig en Skagamenn koma þar á eftir með 20 stig.  Það er því nauðsynlegt að stuðningsmenn fjölmenni á völlinn og styðji liðið í baráttunni.  Dómari leiksins verður hinn geðþekki Kristinn Jakobsson, aðstoðardómarar þeir Eyjólfur Ágúst Finnsson og Ólafur Ingvar Guðfinnsson en eftirlitsmaður KSÍ er Gunnar Randver Ingvarsson.

Lið ÍA er það lið sem Keflavík hefur oftast mætt en jafnframt það lið sem við höfum átt í mestu erfiðleikum með.  Liðin hafa leikið 80 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1958.  Keflavík hefur unnið 20 leiki en Skagamenn 49, jafntefli hefur orðið í 11 leikjanna.  Markatalan er 93-152, liði ÍA í vil.  Keflavík hefur mest unnið ÍA með þriggja marka mun, 4-1 árin 1966 og 1973.  Stærsti sigur Skagamann á Keflavík var 9-0 árið 1959 en það er stærsta tap Keflavíkur í efstu deild frá upphafi.  Mesti markaleikur liðanna var hins vegar 8-2 leikur árið 1995.  Fjórir leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Akranesi; Guðmundur Steinarsson hefur gert tvö og þeir Guðjón Antoníusson, Hörður Sveinsson og Gestur Gylfason hafa gert eitt mark í leikjum þessara liða.  Gestur skoraði einnig eitt mark gegn ÍA í B-deildinni árið 1991.

Liðin hafa mæst 14 sinnum í bikarkeppni KSÍ.  Þar hefur Keflavík unnið 5 leiki, ÍA alls 8 leiki en einum hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 14-23 fyrir ÍA.

Keflavík vann fyrri leik liðanna í sumar þegar liðin mættust á Akranesi.  Lokatölurnar urðu 2-1; Guðjón Antoníusson og Guðmundur Steinarsson tryggðu sigurinn eftir að Hjörtur Hjartarson hafði komið heimamönnum yfir.

Nokkrir leikmenn hafa leikið með báðum liðum.  Þar af eru þrír markverðir, Bjarni Sigurðsson, Ólafur Gottskálksson og Bjarki Freyr Guðmundsson sem nú leikur í marki Skagamanna.  Það má því að segja að Keflavíkingar hafi gjarnan séð Skagamönnum fyrir markmönnum gegnum tíðina.  Kristján Jóhannsson lék einnig með liði ÍA um tíma.

Úrslit í leikjum Keflavíkur og ÍA í Keflavík hafa orðið þessi undanfarin ár:

2004

Keflavík - ÍA

0-2
2002

Keflavík - ÍA

0-2
2001

Keflavík - ÍA

0-1
2000

Keflavík - ÍA

0-2
1999

Keflavík - ÍA

2-0 Eysteinn Hauksson
Kristján Brooks
1998

Keflavík - ÍA

0-1
1997

Keflavík - ÍA

1-1 Þórarinn Kristjánsson
1996

Keflavík - ÍA

0-3
1995

Keflavík - ÍA

0-1
1994

Keflavík - ÍA

2-1 Gestur Gylfason
Sverrir Þór Sverrisson