Fréttir

Knattspyrna | 27. september 2004

Keflavík - KA í úrslitum

Keflavík og KA mætast í úrslitaleik VISA-bikarsins laugardaginn 2. október kl. 14:00.  Þetta varð ljóst eftir undanúrslitaleikina um helgina.  KA vann nýkrýnda Íslandsmeistara FH á laugardag, lokatölur þar urðu 1-0.  Og í gær tryggðu okkar menn sér sæti í úrslitaleiknum með 1-0 sigri á 1. deildarliði HK.

Leikurinn í gær var frekar daufur og vantaði þann neista sem búast mætti við í undanúrslitaleik bikarsins.  Eina markið kom eftir um tíu mínútna leik.  Scott tók aukaspyrnu af hægri kantinum og boltinn hrökk af varnarmanni HK í markteignum og í netið.  Bæði lið fengu nokkur ágæt færi í leiknum en tókst ekki að bæta við mörkum.  HK-menn voru í raun óheppnir að koma boltanum ekki í markið en Magnús sá nokkrum sinnum vel við þeim og stóð sig með prýði í leiknum.

Það er því komið að 7. bikarúrslitaleik Keflavíkur en liðunu hefur tvisvar tekist að sigra í keppninni.  Lið KA féll úr úrvalsdeildinni nú í haust en verður án efa verðugur andstæðingur og það er ljóst að Norðanmenn vilja gera yfirbót með því að landa bikarnum.  Það má því búast við hörkuleik og vonandi fjölmenna Keflvíkingar á Laugardalsvöllinn eins og í gær en stuðningurinn gegn HK var til fyrirmyndar.

Myndir: Héðinn Eiríksson / Víkurfréttir