Keflavík - KS/Leiftur í bikarnum
Keflavík hefur leik í 32 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ gegn KS/Leiftri á morgun fimmtudag 3. júni kl. 19:15 á Njarðtaksvellinum í Njarðvík. KS/Leiftur var stofnað 2006 og er sameiginlegt lið Siglufjarðar og Ólafsfjarðar (Fjallabyggð). Þeir spiluðu í undankeppninni við Tindastól og sigruðu þá 2-1 og sigurmarkið þar skoraði enginn annar en Sigurbjörn Hafþórsson, fyrrum félagi okkar Keflvíkinga. Til gamans má geta að Sigurbjörn hefur skorað fyrir Keflavík í bikarnum en það var árið 2007 þegar hann skoraði sigurmarkið í leik gegn Þrótti R.
KS/Leiftur spilar í 2. deildinni og er í 4. sæti sem stendur. Unnu Víði 0-2, töpuðu fyrir Víking Ólafsvík 1-3 og gerðu síðan jafntefli við KV 3-3. Eru með mikinn markaskorara hann Milan Lazarevic (nr. 10) sem hefur skorað fimm mörk af þessum sex sem liðið hefur skorað.
Keflavík hefur unnið bikarkeppnina fjórum sinnum, 1975, 1997, 2004 og 2006. Þó svo að við séum á toppnum í Pepsi-deildinni þá skiptir það engu í bikarnum. Oft er um óvænt úrslit og lið í neðri deildunum vilja gera þessum stóru liðum lífið leitt. Keflvíkingar verða að vera tilbúnir í þennan leik og ég er viss um að Willum kemur mönnum í þann gír sem þarf. Leikmennirnir okkar vita það alveg hvað er gaman þegar vel gengur og ætti því liðið að koma ákveðið til leiks.
Þess má geta að árskortin gilda EKKI á leik í bikarkeppni KSÍ.
Dómari í leiknum verður Erlendur Eiríksson og honum til aðstoðar þeir Sindri Kristinsson og Ásgeir Þór Ásgeirsson. Eftirlitsmaður verður Örn Bjarnason.