Fréttir

Knattspyrna | 8. júlí 2006

Keflavík - Lilleström á sunnudag kl. 14:00

Það verður mikil fótboltaveisla sunnudaginn 9. júlí.  Keflavík mætir Lilleström í 2. umferð InterToto-keppninnar og hefst leikurinn á Keflavíkurvelli kl. 14:00.  Norðmennirnir unnu fyrri leikinn 4-1 og það er því á brattann að sækja hjá okkar mönnum en eins og í öðrum leikjum er stefnt á sigur.  Í þetta sinn þarf hann að vera þriggja marka og þá er það einfaldlega markmiðið.  Seinna um daginn fer svo fram einhver leikur í Berlín og eftir að hafa mætt á Keflavíkurvöll er upplagt að kíkja á hann í sjónvarpinu.

Þess má geta að dómari leiksins kemur frá Lettlandi og heitir Andrejs Sipailo.  Aðstoðardómar verða landar hans Sergejs Braga og Arnis Lemkins.  Fjórði dómari er Pjetur Sigurðsson en eftirlitsmaður UEFA er Kenneth Ridden frá Englandi.

Það verður örugglega hörkuleikur á sunnudag og okkar menn ætla að selja sig dýrt.  Í okkar hópi eru allir heilir og tilbúnir í leikinn.  Það er full ástæða til að hvetja stuðningsmenn til að mæta, sjá skemmtilegan leik og hvetja okkar menn.  Þátttakan í Evrópukeppninni hefur verið mikið ævintýri og þetta er 8. Evrópuleikur okkar á tveimur árum.  Og nú er mikið í húfi; leikir gegn Newcastle í næstu umferð keppninnar.


Keflavíkurliðið í blíðunni í Osló á dögunum.   Allt stefnir í sama veður á Keflavíkurvelli.
(Mynd: Jón Örvar Arason)