Fréttir

Keflavík - Selfoss á laugardag kl. 14:00
Knattspyrna | 13. maí 2016

Keflavík - Selfoss á laugardag kl. 14:00

Nú er fyrsti heimaleikur sumarsins framundan en hann verður laugardaginn 14. maí þegar Selfyssingar mæta á Nettó-völlinn kl. 14:00.  Það má reikna með hörkuleik en Selfoss vann Leikni F. í markaleik í fyrstu umferðinni á meðan okkar menn gerðu jafntefli gegn HK.  Dómari leiksins verður Vilhelm Adolfsson, aðstoðardómarar hans verða Bjarki Óskarsson og Steinar Stephensen og Eyjólfur Ólafsson er eftirlitsmaður KSÍ.

Keflavík og Selfoss léku síðast í sömu deild árið 2012 þegar bæði léku í efstu deild.  Fyrri leik liðanna það árið lauk með 2-2 jafntefli á Nettó-vellinum þar sem Jóhann Birnir Guðmundsson og Arnór Ingvi Traustson skoruðu mörk Keflavíkur.  Selfoss vann sinn heimaleik 2-1 en þar gerði Jóhann Birnir markið.

Alls hafa þessi félög leikið fjóra leiki í efstu deild, árin 2010 og 2012.  Keflavík vann þar einn leik, Selfoss tvo en einum lauk með jafntefli.  Markatalan er 7-8, Selfyssingum í vil.  Liðin hafa áður leikið átta leiki í B-deildinni.  Keflavík vann fimm leikjanna en þremur lauk með jafntefli.  Markatalan er 20-4 fyrir Keflavík.  Við höfum fjórum sinnum mætt Selfyssingum í bikarkeppninni og alltaf farið með sigur af hólmi.  Markatalan í þeim leikjum er 8-2 fyrir Keflavík.


Mynd frá síðasta leik Keflavíkur og Selfoss á heimavelli okkar, í júlí 2012. 
Haraldur Freyr fyrirliði í baráttu við Viðar Örn Kjartansson.
Tveir leikmenn sem skoruðu í leiknum eru á leið með Íslandi á EM,
þeir Arnór Ingvi Traustason og Jón Daði Böðvarsson.
(Mynd: Jón Örvar)