Fréttir

Keflavík - Selfoss á mánudag kl . 19:15
Knattspyrna | 1. júlí 2012

Keflavík - Selfoss á mánudag kl . 19:15

Mánudaginn 2. júlí fáum við Selfyssinga í heimókn í 9. umferð Pepsi-deildarinnar.  Leikurinn fer fram á Nettó-vellinum og þar verður flautað til leiks kl. 19:15.  Fyrir leikinn eru bæð lið í neðri hluta deildarinnar, Keflavík í 9. sæti með tíu stig en Selfoss er með sjö stig í 10. sætinu.  Það má því reikna með hörkuleik enda þurfa liðin nauðsynlega á stigunum að halda.  Dómari verður enginn annar en Örvar Sær Gíslason, aðstoðardómarar hans verða Áskell Þór Gíslason og Haukur Erlingsson en eftirlitsmaður KSÍ er Jón Þór Ágústsson.

Hér kemur venjulega löng þula um fyrri leiki liðanna en sú saga er ekki löng milli Keflavíkur og Selfoss í efstu deild.  Liðin léku tvö leiki þar árið 2010 þegar Selfyssingar léku þar í fyrsta sinn.  Keflavík vann þá fyrri leik liðanna en hann fór fram á Njarðtaksvellinum í Njarðvík.  Lokatölur urðu 2-1 þar sem Paul McShane og Hörður Sveinsson skoruðu fyrir Keflavík en Sævar Þór Gíslason gerði mark gestanna.  Selfyssingar unnu hins vegar sinn heimaleik 3-2 þar sem Magnús Þórir Matthíasson og Hörður Sveinsson skoruðu fyrir Keflavík en Jón Guðbrandsson, Viktor Unnar Illugason og Viðar Örn Kjartansson fyrir Selfoss.

Liðin hafa hins vegar leikið eina átta leiki í næstefstu deild, þá fyrstu árið 1981 og síðast árið 1992.  Keflavík vann fimm leikjanna en þremur þeirra lauk með jafntefli.  Markatalan er 20-4 fyrir Keflavík.

Liðin hafa fjórum sinnum mæst í bikarkeppninni og hefur Keflavík alltaf sigrað.  Liðin léku fyrst í 16 liða úrslitum árið 1974 og þá skoraði Steinar Jóhannsson eina mark leiksins á Selfossi.  Liðin mættust aftur í 16 liða úrslitum árið 1988 og þá vann Keflavík í vítaspyrnukeppni eftir markalaust jafntefli á Keflavíkurvelli.  Keflavík vann aftur nauman heimasigur árið 1990 þegar Selfyssingar komu í heimsókn í 8 liða úrslitum keppninnar en þeim leik lauk 3-2.  Liðin léku síðast bikarleik árið 2002 og þá vann Keflavík öruggan 4-0 sigur fyrir austan fjall í 32 liða úrslitunum.  Þess má geta að Magnús Þorsteinsson skoraði tvö mörk í þeim leik.   Zoran Daníel Ljubicic, Ómar Jóhannsson, Haraldur Freyr Guðmundsson og Jóhann R. Benediktsson tóku einnig þátt í þeim leik og liðsstjórinn Jón Örvar Arason kom inn á sem varamaður!

Það hefur ekki verið mikill samgangur milli Keflavíkur og Selfoss í gegnum árin.  Selfyssingurinn Anton Hartmannsson var varamarkmaður Keflavikur árið 1997 og lék í síðasta leiknum það sumarið.  Sonur Antons, Einar Ottó, hefur leikið með Selfossi undanfarin ár en hann var í okkar herbúðum árið 2003 og lék þá nokkra bikarleiki með U-23 ára liði Keflavíkur.  Þá hefur Gústaf Adolf Björnsson þjálfað bæði liðin.