Keflavík - Stjarnan á mánudag kl. 19:15
Það verður spennandi leikur á annan í hvítasunnu þegar topplið Stjörnunnar mætir í heimsókn. Þá leika Keflavík og Stjarnan á Sparisjóðsvellinum í Keflavík og hefst leikurinn kl. 19:15. Nýliðar Stjörnunnar hafa staðið sig frábærlega í upphafi móts og eru efstir í deildinni með 12 stig eins og FH. Okkar menn eru ekki langt undan í 3.-5. sæti með 10 stig ásamt Fylki og KR. Dómari leiksins verður toppdómarinn Kristinn Jakobsson, aðstoðardómarar Sigurður Óli Þórleifsson og Ólafur Ingvar Guðfinnsson og eftirlitsmaður KSÍ verður Sigurður Hannesson.
Keflavík og Stjarnan hafa leikið 8 leiki í efstu deild á árunum 1994-2000. Keflavík hefur unnið 4 leiki en Stjarnan tvo og tvisvar hefur orðið jafntefli. Markatalan er 13-8 fyrir Keflavík. Þeir Haukur Ingi Guðnason og Jóhann Birnir Guðmundsson hafa báðir skorað tvö mörk gegn Stjörnunni í efstu deild.
Liðin hafa leikið 4 leiki í B-deildinni, árin 1992 og 2003. Keflavík hefur unnið tvo þessara leikja og Stjarnan einn, einum leik lauk með jafntefli. Markatalan er 8-6 fyrir Keflavík. Einn leikmaður Keflavíkur hefur skorað í leikjum liðanna í næstefstu deild en það er Magnús Þorsteinsson.
Keflavík og Stjarnan hafa einu sinni mæst í bikarkeppni KSÍ en það var einmitt á síðasta ári. Þá vann Keflavík 2-1 á heimavelli í 32 liða úrslitum keppninnar. Magnús Þorsteinsson kom Keflavík yfir og Stjörnumenn skoruðu svo sjálfsmark áður en Ellert Hreinsson minnkaði muninn á lokamínútunni.
Liðin mættust síðast í deildarleik árið 2003 þegar þau léku í 1. deild. Fyrri leik liðanna lauk með 5-3 heimasigri Keflavíkur. Þar skoraði Stefán Gíslason tvö mörk og þeir Magnús Þorsteinsson, Adolf Sveinsson og Hafsteinn Rúnarsson eitt mark hver. Brynjar Sverrisson, Valdimar Kristófersson og Vilhjálmur Vilhjálmsson skoruðu fyrir gestina. Seinni leiknum í Garðabæ lauk með 1-1 jafntefli. Ólafur Gunnarsson náði forystunni fyrir heimamenn en Scott Ramsay jafnaði fyrir Keflavík.
Nokkrir leikmenn hafa leikið með bæði Keflavík og Stjörnunni í gegnum árin, m.a. Adolf Sveinsson, Kristinn Guðbrandsson og markmennirnir Bjarki Freyr Guðmundsson og Magnús Þormar.
Úrslit í leikjum Keflavíkur og Stjörnunnar í Keflavík hafa orðið þessi:
2003 | B-deild |
Keflavík - Stjarnan |
5-3 | Stefán Gíslason 2 Magnús Þorsteinsson Adolf Sveinsson Hafsteinn Rúnarsson | ||
2000 | A-deild |
Keflavík - Stjarnan |
1-0 | Guðmundur Steinarsson | ||
1997 | A-deild |
Keflavík - Stjarnan |
2-1 | Eysteinn Hauksson Haukur Ingi Guðnason | ||
1996 | A-deild |
Keflavík - Stjarnan |
0-1 | |||
1994 | A-deild |
Keflavík - Stjarnan |
4-1 |
Ragnar Margeirsson 2 | ||
1992 | B-deild |
Keflavík - Stjarnan |
1-0 | Marco Tanasic |